Dómsuppsaga í Aurum-málinu svokallaða mun fara fram á morgun, fimmtudag. Í málinu eru þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Glitnis, Lárus Welding, fyrrum bankastjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitni, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum.
Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Sérstakur saksóknari vill meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Sérstakur saksóknari fer fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi Welding í málinu of fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna.
Dómsuppsagan fer fram klukkan tíu í sal 101 á morgun.