Dómsuppsaga fer fram í SPRON-málinu svokallaða klukkan tíu í fyrramálið, þann 25, júní. Aðalmeðferð í málinu fór fram í byrjun þessa mánaðar og því ljóst að héraðsdómur Reykjavíkur hefur ekki þurft að nýta þann frest sem hann hefur samkvæmt lögum til að komast að niðurstöðu.
Í málinu eru fjórir fyrrum stjórnarmenn og fyrrum forstjóri SPRON ákærðir fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna láns sem SPRON veitti Exista þann 30. september 2008, deginum eftir að Glitnir var þjóðnýttur og íslenska bankakerfið allt var á heljarþröm.
Hinir ákærðu eru Guðmundur Örn Hauksson, fyrrum sparisjóðsstjóri og síðar forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, auk Ara Bergmanns Einarssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurs. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu lánið.
Ákæruvaldið fer fram á að allir hinna ákærðu verði dæmdir í fangelsi þar sem brot þeirra séu stórfelld. Það telur einnig að styrkur og vilji Guðmundar Haukssonar til brots sterkari en hjá stjórnarmönnunum. Hámarksrefsing fyrir umboðssvik er sex ára fangelsi.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í upphafi júnímánaðar.