Ólafur Ólafsson, stjórnarformaður og aðaleigandi hollenska félagsins Samskip Holding B.V. sem er móðurfélag Samskipa hf, hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti Íslands í gær fyrir aðild sína að Al-Thani málinu svokallaða. Dómurinn hefur ekki áhrif á hæfi Ólafs til stjórnarsetu á Íslandi, þar sem hann var sýknaður af ákærulið málsins þar sem honum var gefin að sök hlutdeild að umboðssvikum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur dómurinn ekki heldur áhrif á hæfi hans til að eiga sæti í stjórn móðurfélags Samskipa í Hollandi.
Sekur um hlutdeild að markaðsmisnotkun
Í 66. grein laga um hlutafélög segir að stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar megi ekki hafa hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur á síðustu þremur árum fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
Kveðið er á um umboðssvik í 249 grein almennra hegningarlaga, en þar segir: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.“
Ólafur var sakfelldur fyrir aðild að markaðsmisnotkun í Al-Thani málinu, en kveðið er á um þau atriði sem falla undir markaðsmisnotkun í lögum um verðbréfaviðskipti.
Engin viðbrögð frá Samskipum
Svokölluð B.V. félög, lúta ekki sérstöku eftirliti hjá hollenskum eftirlitsstofnunum, og samkvæmt upplýsingum Kjarnans hefur sakfelling Ólafs Ólafssonar í Hæstarétti ekki áhrif á hæfi hans til stjórnarsetu hjá Samskipum Holding B.V.
Hins vegar segir heimildarmaður Kjarnans, lögmaður hjá lögmannsstofunni CMS í Hollandi, að hollenska dómsmálaráðuneytið geti krafist afsagnar stjórnarmanna með hliðsjón af alvarleika brotsins sem þeir hafa verið sakfelldir fyrir. Hins vegar sé afar sjaldgæft að ráðuneytið hafi frumkvæði að slíku.
Kjarninn leitaði í dag viðbragða hjá Samskipum á Íslandi við fangelsisdómnum yfir stærsta eiganda skipafélagsins. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, gaf ekki kost á viðtali og í tölvupósti frá Önnu Guðnýju Aradóttur, forstöðumanni Markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, til Kjarnans segir: „Við höfum ekkert að segja á þessu stigi málsins eins og fram kom í samtali okkar fyrr í dag.“