Til stendur að innleiða svokallað „Carlsberg-ákvæði“ að danskri fyrirmynd inn í íslensk skipulagslög, en ákvæðið veitir sveitarfélögum heimild til þess að gera kröfu um að 25 prósent byggingarmagns í nýju deiliskipulagi verði fyrir hagkvæmar íbúðir, félagslegar íbúðir, eða aðrar leiguíbúðir, óháð því hvort sveitarfélagið, ríkið eða einkaaðili á landið sem um ræðir.
Frumvarpsdrög frá Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra um þetta efni hafa nú verið lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda, en tillaga um að leiða þetta dansk-ættaða ákvæði inn í skipulagslögin kom fram í vinnu átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skipaði undir lok árs 2018.
Svipaður starfshópur um húsnæðismarkaðinn var svo settur á fót í febrúar á þessu ári og lagði til í skýrslu sinni, sem birt var í maí, að Carlsberg-ákvæði yrði sett inn í lögin.
Í skýrslu starfshópsins sagði að með aukinni uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þéttingarreitum og landi sem er í eigu í annarra en sveitarfélaga þyrfti að „tryggja sveitarfélögunum heimildir varðandi blöndun byggðar fyrir ólíka hópa þannig að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum um húsnæðismál“ og í því sambandi að „heimila sveitarfélögum að skilyrða að allt að 25% íbúða á heildstæðum skipulagsreitum verði almennar íbúðir, félagslegar íbúðir eða aðrar leiguíbúðir“.
Heimild, en ekki skylda
Lagabreytingin sem lögð er til í drögunum frá innviðaráðherra er nokkuð einföld í grunninn og einungis eitt nýtt ákvæði bætist við lögin ef frumvarpsdrögin ná fram að ganga. Það hljóðar svo:
„Heimild til að skilyrða um 25 prósent íbúða á viðráðanlegu verði.
Sveitarfélögum er heimilt að gera kröfu um það við gerð deiliskipulags að allt að 25 prósent nýrra íbúða byggingamagns verði fyrir hagkvæmar íbúðir, leiguíbúðir og aðrar íbúðir sem njóta stuðnings ríkis og/eða sveitarfélaga.“
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að markmiði með málinu sé að „aðstoða sveitarfélögin og hvetja þau til að skipuleggja íbúðarbyggð þannig að gert sé ráð fyrir fjölbreyttri byggð innan svæðis og stuðlað að því að lágmarki 25% af byggingarmagni svæðis samkvæmt nýju deiliskipulagi verði fyrir hagkvæmar íbúðir og aðrar íbúðir sem njóta einhverskonar stuðning stjórnvalda og er ætlað að leysa úr húsnæðisþörf tekju- og eignalægri hópa“.
Þar segir einnig að með því að heimila sveitarfélögum að gera kröfu um allt að 25 prósent byggingarmagns undir hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði sé sveitarfélögum gert kleift að komast hjá því að semja sérstaklega um 25 prósent byggingarmagnið, en þó er tekið fram að auðvitað komi það ekki í veg fyrir að samið sé um enn meira eða ákveði þá lægra hlutfall.
Góð reynsla í dönskum borgum
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum er stuttlega fjallað um reynslu Dana af ákvæðinu, en það kom inn í danskan rétt árið 2015 með breytingum á skipulagslögum sem gerðar voru í því skyni að stuðla að blandaðri byggð í landinu.
„Í skýrslu danskra stjórnvalda frá 2021 um dönsku skipulagslögin (Evaluering af planloven mv. 2021) kemur fram að reynsla af lagabreytingunni frá 2015 hafi verið jákvæð, sérstaklega á Kaupmannahafnarsvæðinu og í Árósum.
Þá var fulltrúum Bolig og planstyrelsen í Danmörku ekki kunnugt um að komið hafi upp nokkur vandamál í tengslum við ákvæðið, svo sem kröfur um skaðabætur né önnur vandamál,“ segir í greinargerðinni.
Í umfjöllun innviðaráðuneytisins um áhrif frumvarpsins segir að það muni fyrst og fremst hafa áhrif á sveitarfélög og framkvæmdaraðila, en á allan almenning til lengri tíma, „með aukinni fjölbreytni á fasteignamarkaði, leiða til stöðuleika á markaðinum og tryggja fleirum þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði“.
Einnig segir að frumvarpið muni auðvelda sveitarfélögum að mæta þörfum einstakra hópa – og að telja megi ávinning af frumvarpinu „umtalsverðan“.