Stjórnendur DV brutu lög um persónuvernd með meðferð sinni á tölvupósthólfum Reynis Traustasonar, Jóns Trausta Reynissonar og Heiðu B. Heiðars eftir að þau höfðu látið af störfum fyrir miðilinn haustið 2014. Tölvupóstar sem bárust í pósthólf þeirra innan DV var áframsendur á annað starfsfólk sem opnaði hann og skoðaði, að sögn þremenninganna. Auk þess hafi efni verið vistað og afritað án þeirra samþykkis. Persónuvernd hefur nú komist að því að DV hafi ekki mátt framsenda tölvupósta þeirra áfram til annarra. Frá þessu er greint á vef RÚV sem hefur úrskurðinn undir höndum.
Forsaga málsins er sú að í ágúst í fyrra hófust mikil átök um yfirráð yfir dagblaðinu DV og tengdum miðlum. Þeim lauk með því að Reynir Traustason, þáverandi stærsti eigandi DV og ritstjóri blaðsins, og hópur stjórnenda og starfsmanna sem tengdust honum, var rekinn eða sagði upp störfum. Hópur undir stjórn Þorsteins Guðnasonar hafði þá náð meirihluta í útgáfufélaginu og Hallgrímur Thorsteinsson verið ráðinn nýr ritstjóri.
Í frétt RÚV segir að þremenningarnir, sem höfðu gegnt lykilstöðum innan DV (Reynir var ritstjóri, Jón Trausti framkvæmdastjóri og Heiða auglýsingastjóri), hefði ekki gefist kostur á að skoða pósthólf sín eftir að þau hættu til að aðgreina tölvupósta sem töldust til einkatölvupósta og pósta sem vörðuðu hagsmuni eða starfsemi DV. Þá hafi einkapóstur þeirra verið sendur áfram á annað starfsfók sem hafi opnað hann, skoðað og í einhverjum tilfellum vistað og afritað innihald þeirra án samþykkis þremenninganna. Þessi vöktun hefði staðið í nokkrar vikur eftir að þau létu af störfum.
Auk þess kvartaði Reynir sérstaklega yfir því að Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttalögmaður sem gegndi stóru hlutverki í yfirtökunni á DV og settist í stjórn útgáfufélagsins að henni lokinni, hefði miðlað persónuupplýsingum um sig til Björns Leifssonar, eiganda World Class, sem er skjólstæðingur Sigurðar. Þá hafi Sigurður birt kafla og myndir á Facebook úr handriti að bók sem Reynir var á þeim tíma að vinna að. Kjarninn greindi frá því máli í nóvember 2014.
Lögmaður Reynis, Jóns Trausta og Heiðu lagði fram bréf í máli þeirra fyrir Persónuvernd sem var frá Hallgrími Thorsteinssyni, sem ráðinn var ritstjóri DV í stað Reynis, Þar sem Hallgrímur staðfesti að tölvupósthólf Reynis hefði verið opið 12. september eða fimm dögum eftir að hann var rekinn.
Í útskýringum sínum á athæfinu sögðu forsvarsmenn DV að þeir hefðu talið nauðsynlegt að áframsenda tölvupóst Heiðu til að „halda þeirri gátt opinni.“ Samkvæmt frétt RÚV segir Persónuvernd í úrskurði sínum að það hafi ekki verið útskýrt nánar af hálfu DV. Þá hafi engin rök verið færð fram fyrir því hvers vegna nauðsynlegt hafi verið að áframsenda póst sem barst á netfang Jóns Trausta. Niðurstaða Persónuverndar er því sú að DV hafi ekki mátt framsenda tölvupóst þremenningana til annarra. Persónuvernd vísaði hins vegar frá kvörtun Reynis gegn Sigurði G. Guðjónssyni. Það sé dómstóla að kveða á um hvort Sigurður hafi farið út fyrir ramma tjáningarfrelsins og Póst og fjarskiptastofnunar að ákvæða hvort lög hafi verið brotin þegar Sigurður áframsendi tölvupóst á Björn Leifsson.
Í nóvember í fyrra var tilkynnt að Pressan ehf., móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt, hefði keypt ráðandi hlut í útgáfufélaginu DV. Með kaupunum var Pressan orðin eigandi að ríflega tveggja þriðju hlutafjár í DV ehf. Aðaleigandi fjölmiðlasamsteypunnar er Björn Ingi Hrafnsson.
Skipt var um helstu stjórnendur hjá DV í desemberlok. Þá voru Eggert Skúlason og Kolbrún Bergþórsdóttir ráðin ritstjórar blaðsins en Hallgrímur Thorsteinsson lét af störfum.