Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að með útgáfu kynningarblaðsins Bjór þann 27. febrúar síðastliðinn hafi DV brotið gegn 4. málsgrein 37. greinar laga um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi. Þá komst Fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að með útgáfu kynningarblaðsins Bjórmenning á Íslandi, sem dreift var með Fréttablaðinu þann 21. mars síðastliðinn, hafi 365 miðlar brotið gegn 1., 2., og 4. málsgrein laganna um skyldu til aðgreiningar viðskiptaboða og ritstjórnarefnis, bann við duldum auglýsingum og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjölmiðlanefnd sem birti ákvarðanirnar á vef sínum í dag. „Samkvæmt lögum um fjölmiðla verður að afmarka ritstjórnarefni og viðskiptaboð í fjölmiðlum með skýrum hætti og auðkenna viðskiptaboð sem slík. Tilgangur þessara reglna er að tryggja að notendur fjölmiðla viti hvort umfjöllun er keypt eða unnin af sjálfstæðri og faglegri ritstjórn. Fjölmiðlanefnd telur þörf á að árétta gildandi réttarreglur á þessu sviði og þýðingu þeirra fyrir fjölmiðla,“ segir í tilkynningunni.
Þá hefur nefndin sent 365 miðlum erindi vegna frétta af duldri auglýsingu í sjónvarpsþættinum Ísland í dag á Stöð 2 þann 28. maí síðastliðinn. Kjarninn og Stundin fjölluðu meðal annars um málið. „Í erindi fjölmiðlanefndar til 365 miðla segir að nefndin geri að svo stöddu ekki frekari athugasemdir við þá duldu auglýsingu á Stöð 2, sem hér hefur verið vísað til, þar sem fram hafi komið að mistök við efnisvinnslu hafi átt sér stað hjá 365 miðlum. Um leið ítrekar fjölmiðlanefnd að lögum samkvæmt eru dulin viðskiptaboð bönnuð og að 365 miðlum, sem og öðrum fjölmiðlum, ber að aðgreina viðskiptaboð og ritstjórnarefni með skýrum hætti. Þá eru óheimil viðskiptaboð og fjarkaup fyrir tóbaksvörur, áfengi, lyfseðilsskyld lyf og happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi hér á landi,“ segir Fjölmiðlanefnd.
„Þess skal einnig getið að í apríl á þessu ári sendi fjölmiðlanefnd erindi til hljóð- og myndmiðla þar sem óskað var eftir yfirliti miðlanna yfir þá þætti og dagskrárliði sem taldir væru til frétta og fréttatengds efnis. Um leið var athygli vakin á því að samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 er óheimilt að kosta fréttir og fréttatengt efni.
Fjölmiðlanefnd vinnur nú að gerð leiðbeininga fyrir fjölmiðla um kostun og bann við duldum auglýsingum. Þar verður meðal annars fjallað um bann við kostun frétta og fréttatengds efnis og hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt svo að kostun hljóð- og myndefnis sé í samræmi við ákvæði laga um fjölmiðla. Leiðbeiningar þessar verða sendar fjölmiðlum til umsagnar á næstu vikum en verða að því búnu kynntar og birtar á vef fjölmiðlanefndar.“