Íslenska eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðaráss fjárfestingabanki, hefur sett til hliðar tæplega 23 milljónir evra, jafnvirði um 3,4 milljarða íslenskra króna, sem félagið hyggst greiða í bónusa til lykilstarfsmanna og stjórnarmanna. Þetta kemur fram í DV í dag.
Að meðaltali munu greiðslurnar nema yfir 100 milljónum króna á starfsmann en þeir sem fá hæstu greiðslurnar geta átt von á því að fá hundruð milljóna í sinn hlut. Í þeim hópi er meðal annars Jakob Ásmundsson, núverandi forstjóri Straums fjárfestingabanka, en hann gegndi áður starfi fjármálastjóra ALMC, að því er segir í umfjöllun DV.
Samkvæmt heimildum DV, sem vitnað er til í umfjöllun blaðsins, er fjöldi þeirra starfsmanna sem fá slíkar kaupaukagreiðslur frá ALMC á bilinu tuttugu til þrjátíu. Meirihluti þeirra eru erlendir einstaklingar en einnig er um að ræða Íslendinga sem hafa starfað fyrir bæði ALMC og Straum fjárfestingabanka á undanförnum árum.
Eignaumsýslufélagið ALMC varð til í kjölfar þess að kröfuhafar Straums-Burðaráss, sem fór í greiðslustöðvun í mars 2009, samþykktu nauðasamninga félagsins sumarið 2010 og fengu þá um leið yfirráð í félaginu. Á meðal eigna ALMC var Straumur fjárfestingabanki en í júlí á síðasta ári seldi félagið hins vegar meirihlutaeign sína í bankanum. Eignir ALMC eru að langstærstum hluta erlendar eignir.