Það er dýrast að búa í fjölbýli í miðborg Reykjavíkur. Þar á eftir kemur Vesturbærinn, Seltjarnarnes og Sjálandshverfið í Garðabæ. Ódýrasta hverfi höfuðborgarsvæðisins er Álfaskeið, Vanga- og Hraunahverfi í Hafnarfirði og Seljahverfið í Breiðholti. Vert er hins vegar að taka fram að það er mikið magn sérbýla, einbýlishúsa, í Seljahverfinu.
Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár um þróun íbúðaverðs eftir hverfum og árum á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2014. Tölurnar eru nýbirtar.
Meðaltalshækkun 9,6 prósent
Kjarninn skoðaði fermetraverð allra hverfa höfuðborgarsvæðisins árin 2013 og 2014 og reiknaði út hækkun á fermetraverði í fjölbýli miðað við kaupverð. Meðaltalshækkun á fermetraverði á svæðinu var 9,6 prósent.
Fermetraverðið er hæst í miðborginni, innan Hringbrautar og Snorrabrautar, 382 þúsund krónur. Það hækkaði um 10,8 prósent á milli ára. Lægsta fermetraverðið á höfuðborgarsvæðinu er á Álfaskeiði í Hafnarfirði, eða 217 þúsund krónur. Hækkun á verði íbúðahúsnæðis þar var líka langt undir meðaltalshækkun á svæðinu, eða 5,8 prósent á milli ára.
Mesta hækkunin á fermetraverði milli áranna 2013 og 2014 var í Vangahverfinu í Hafnarfirði. Þar hækkaði verðið um 15,6 prósent á síðasta ári. Þar á eftir koma Vogahverfið og Hólahverfið í Breiðholti.
Minnsta hækkunin var í Bergunum í Hafnarfirði. Heilt yfir hækkaði fermetraverðið mun minna í mörgum hverfum í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.