Brynjar Níelsson sér þess ekki merki að við endurreisn bankanna þriggja hafi verið beitt svikum og blekkingum eða að farið hafi verið á svig við lög. Þrátt fyrir það segir hann eðlilegt að skoðað verði, að minnsta kosti að einhverju leyti, hvort veigamiklar ákvarðanir hafi í öllum tilvikum verið eðlilegar á þeim tíma sem þær voru teknar og hvort málefnaleg sjónarmið hafi alltaf legið þar að baki.
Þetta kemur fram í skýrslu hans til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna erindis Víglundar Þorsteinssonar, en Víglundur hefur haldið því fram að svikum og blekkingum hafi verið beitt við endurreisn bankakerfisins og útlendingar hafi hagnast um hundruð milljarða á því.
Brynjar segir nauðsynlegt og eðlilegt að skoða allt ferlið við endurreisn bankakerfisins og aðgerðir við endurskipulagingu skulda fyrirtækja og einstaklinga í því skyni að styrkja lagaumgjörðina og skýra formreglur stjórnsýslunnar. Einhver kostnaður muni fylgja endurskoðun og yfirferð af þessu tagi en hún er engu að síður nauðsynleg að mati Brynjars.
Gögn Víglundar ófullnægjandi
Þá segir Brynjar í skýrslunni að gerð hennar hafi tekið lengri tíma en áætlað var, fyrst og fremst vegna þess að gögnin sem fylgdu erindi Víglundar til Alþingis hafi verið ófullnægjandi. „Því var ekki hægt að leggja mat á þær fullyrðingar og ásakanir sem þar komu fram, án þess að afla frekari gagna, fara yfir lög, reglur og stjórnsýsluákvarðanir sem tengdust málefninu og ræða við ýmsa sem voru með einum eða öðrum hætti þátttakendur í atburðarásinni og aðra sem miðlað gátu af þekkingu sinni.“
Þá segir Brynjar að fullyrða megi þegar horft sé til baka að margt hefði mátt gera betur, en hvað sem því líði verði ekki hjá því horft að tekist hafi að endurreisa bankakerfið „og greiðslumiðlun féll ekki niður einn einasta dag. Hér stóðu stjórnmálamenn, embættismenn og sérfræðingar frá haustinu 2008 frammi fyrir nánast óvinnandi verkefni við fordæmalausar aðstæður. Það verkefni var, þrátt fyrir allt, leyst af hendi og ástæða er til að fagna því.“