Forstjóri Össurar segir að það sé „ákveðinn efnahagslegan ómöguleiki í því fólginn að vera hér á Íslandi,“ þrátt fyrir að hann vonist til þess að félagið verði áfram hér á landi. Þetta sagði forstjórinn, Jón Sigurðsson, í samtali við Fréttablaðið í dag. Hann segir það trufla félagið að vera um þriðjung hlutabréfa félagsins fastan á Íslandi innan gjaldeyrishafta og þótt engar ákvarðanir hafi verið teknar um að flytja úr landi sé aldrei hægt að vita hvenær þolinmæðin þrýtur. Þá segir Sveinn Sölvason, fjármálastjóri fyrirtækisins, að sú staðreynd að Össur sé íslenskt félag að upplagi kosti það peninga.
Stjórnendur Össurar hafa áður talað á þessum nótum. Í samtali við Kjarnann í fyrra sagði Jón að ráðaleysi stjórnvalda í efnahagsmálum, óútfært plan um afnám fjármagnshafta og áform um að draga umsókn að Evrópusambandinu til baka hafi valdið félaginu miklum áhyggjum.
Þá hefur Niels Jacobsen stjórnarformaður lýst yfir miklum áhyggjum af stöðu mála á Íslandi. Hann sagði til að mynda á síðasta aðalfundi félagsins að augljóslega væri ekki hægt að reka alþjóðlegt fyrirtæki á stað þar sem „gjaldmiðillinn væri varla til“.
Eins og Kjarninn greindi frá í vikunni hagnaðist Össur um 59 milljónir Bandaríkjadala í fyrra, eða sem nemur um sjö milljörðum króna. Þetta er um 45 prósent aukning frá árinu 2013. Þetta kom fram í tilkynningu frá Össuri til kauphallar í vikunni. Hagnaðurinn nam um 12 prósent af sölutekjum félagsins, samanborið við um 9 prósent af sölutekjum árið 2013. Undirliggjandi rekstur styrktist því umtalsvert milli ára, og flestar tölur í uppgjörinu benda til þess að árið 2014 hafi verið uppsveifluár hjá Össuri miðað við árið á undan.
Sölutekjur námu um 509 milljónum Bandaríkjadala, eða um 59 milljörðum króna, og jókst salan um átján prósent milli ára. EBITDA (rekstrahagnaður fyrir fjármagnskostnað, skatta og afskriftir) nam um 104 milljónum Bandaríkjadala, eða um tólf milljörðum króna. Þetta nemur um 20 prósent af sölutekjum, en árið 2013 var EBITDA um átján prósent af sölu.