Það eina prósent landsmanna sem var með hæstu heildartekjurnar á árinu 2012 áttu samtals 229,5 milljarða króna. Hópurinn skuldaði 37,4 milljarða króna og því var hrein eign hans 192,1 milljarður króna. Alls var hrein eign landsmanna allra, eignir að frádregnum skuldum, 2.075,5 milljarðar króna í lok árs 2012 og því átti efsta eina prósentið tæplega tíu prósent af hreinni eign landsmanna.
Þetta eina prósent á líka langmest af reiðufé. Alls á það 86,3 milljarða króna í innlendum innstæðum, eða 19 prósent allra slíkra, og 5,6 milljarða króna í uppgefnum erlendum innistæðum, eða 64 prósent allra erlendra innstæðna sem Íslendingar skrá í skattframtalin sín.
Í fyrsta sinn sem svona upplýsingar eru aðgengilegar
Þetta kemur fram í skattatölfræði Ríkisskattstjóra þar sem eignum heimila í landinu er skipt niður eftir tekjuhópum. Upplýsingarnar byggja á skattaframtölum einstaklinga og samskattaðra (sambýlisfólks eða hjóna) og miða við stöðu gagna strax að loknum framtalsskilum vegna ársins 2012. Að baki tölunum eru um 246.600 manns. Þær voru nýverið birtar á heimasíðu Ríkisskattstjóra.
Um er að ræða nýjustu tölur sem hægt er að nálgast sem byggja á skattframtölum. Í skjalinum sem embætti ríkisskattstjóra birti fyrir skemmstu er í fyrsta sinn hægt að sjá hvað hvert prósent landsmanna á og skuldar. Áður var einungis hægt að sjá þær niðurstöður í fimm prósenta hlutfallsbilum. Því er þetta í fyrsta sinn sem hægt er að segja til um eign þess prósents landsmanna sem er með hæstu launin.
Þetta er brot úr skýringu Kjarnans um málið. Lestu hann í heild sinni hér.