EFTA-ríkin, Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein, hafa ákveðið að hefja könnunarviðræður við Mercosur viðskiptabandalagið um gerð hugsanlegs viðskiptasamnings. Aðild að Mercosur eiga Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Ákvörðun um að hefja viðræðurnar var tekin á tekin á fundi EFTA og Mercosur sem haldinn var fyrir helgi í Brasilíu, sem nú fer með formennsku í bandalaginu. Hún kemur í kjölfar heimsóknar Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Brasilíu á síðasta ári þar sem hann lagið viðræðurnar til. Í tilkynningunni er haft eftir Gunnari Braga að það sé mikið fagnaðarefni að "jákvæð skref hafi verið tekin varðandi mögulegar viðræður við Mercosur ríkin svo fljótt eftir heimsókn okkar til Brasilíu. Brasilía og Mercosursvæðið í heild fela í sér mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að hasla sér völl. Ég bind vonir við að það takist að hefja formlegar viðræður innan ekki of langs tíma."