Skipti, móðurfélag Símans og fleiri fyrirtækja, hagnaðist um 3,3 milljarða króna eftir skatta á síðasta ári. Á tímabilinu 2008 og til loka árs 2013 tapaði félagið samtals 50 milljörðum króna. Þetta er því í fyrsta sinn sem þetta stærsta fjarskiptafyrirtæki landsins skilar hagnaði síðan að efnahagshrunið átti sér stað á Íslandi haustið 2008.
Rekstrartekjur Skipta, sem eru að 99 prósent leyti sölutekjur, voru 30,3 milljarðar króna í fyrra og jukust lítillega á milli ára, eða um 1,3 prósent. Þær tekjur er þó langt frá því sem þær voru þegar best lét. Árið 2009 voru rekstrartekjur félagsins til að mynda 40,3 milljarðar króna, eða tíu milljörðum króna hærri en í fyrra.
Ástæður þessa eru helst þær að fyrirtæki sem töluverða veltu hafa verið seld út úr samstæðunni. Á þessu tímabili hefur markaðshlutdeild Símans á farsímamarkaði einnig dregist umtalsvert saman.
Stærstu eigendur Skipta eru Arion banki (38,32 prósent) og íslenskir lífeyrissjóðir. Stefnt er að því að skrá felagið á markað í nánustu framtíð. Undir Skipti heyra Síminn, Skjárinn, Míla, Sensa, Radíómiðlun, Staki og Talenta.
Tap undanfarinna ára vegna niðurfærslu viðskiptavildar
Hið mikla tap sem hefur verið á rekstri Skipta undanfarin ár er að stóru leyti tilkomin vegna þess að viðskiptavild félagsins hefur verið skrúfuð niður um 33 milljarða króna frá árslokum 2008. Á árinu 2013, sama ári og fjárhagslegri endurskipulagningu Skipta lauk, bókfærði félagið til að mynda 17 milljarða króna tap þrátt fyrir að hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta hefði verið 8,3 milljarðar króna. Stærsta breytan í þeirri niðurstöðu var niðurfærsla upp á viðskiptavild upp á 14 milljarða króna.
Orri Hauksson, forstjóri Skipta, sagði við Kjarnann í mars 2014 að þessi mikla viðskiptavild hefði aðallega verið tilkomin vegna einkavæðingar Símans árið 2005. „Þá varð til stærð í bókhaldinu vegna þess að félagið var keypt á yfirverði og hún fékk nafnið viðskiptavild. Hún óx síðan eitthvað aðeins vegna kaupa á öðrum félögum“.
Ríkið græddi vel á sölu Símans
Sala íslenska ríkisins á hlutafé sínu í Símanum sumarið 2005 mun líklega fara í sögubækurnar sem ein bestu viðskipti sem framkvæmd hafa verið á Íslandi. Exista og viðskiptalegir meðreiðarsveinar þess áður stórtæka fjárfestingarfélags, sem síðar magalenti stórkostlega, keyptu Símann undir hatti félags sem fékk nafnið Skipti á upphæð sem í dag myndi vera um 140 milljarðar króna.
Kaupin voru fjármögnuð með lánum og skuldunum sem stofnað var til vegna þeirra var dembt aftur inn í reksturinn með því að sameina Skipti og Símann í svokölluðum öfugum samruna. Vegna þess háa verðmiða sem greiddur var fyrir Símann varð viðskiptavild Skipta mjög há. Ofan af henni hefur þurft að vinda á undanförnum árum eftir að raunveruleikinn tók við af sýndarveruleika fyrirhrunsáranna.
Engin niðurfærsla varð á viðskiptavild Skipta á árinu 2014 heldur stóð hún í stað. Svo virðist því sem að félagið sé búið að færa hana niður í takti við raunveruleikann sem það starfar í.
Reksturinn í jafnvægi
Í tilkynningu til Kauphallar vegna afkomu Skipta er haft eftir Orra að reksturinn hafi verið í ágætu jafnvægi á árinu. „Tekjur jukust lítillega og og EBITDA stendur í stað milli ára. Efnahagsreikningur félagsins hefur gjörbreyst í kjölfar endurskipulagningar og skilar fyrirtækið nú hagnaði í fyrsta sinn frá hruni. Hann nemur 3,3 milljörðum króna. Fjárfestingar á árinu námu 4,5 milljörðum króna og eru þær mestu um árabil. Við lögðum áherslu á að halda áfram að skipuleggja starfsemina til framtíðar og undirbúa félagið fyrir skráningu í kauphöll. Tilkynnt var um sameiningu rekstrar Símans og Skipta á árinu og samþykkti Samkeppniseftirlitið sameininguna í ársbyrjun 2015. Þá hefur verið skerpt á upplýsingatækninni með því að sameina UT starfsemi Símans við Sensa.“