Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) fylgist með framkvæmd höfuðstólslækkunar á verðtryggðum lánum, sem gengur undir nafninu Leiðréttingin, til að koma í veg fyrir að í henni muni felast ríkisaðstoð til banka. Þeir sem vænta þess að fá höfuðstólslækkun munu væntanlega ekki fá að vita hversu há hún verður fyrr en um næstu mánaðarmót, en tilkynnt hafði verið um það opinberlega að slík vitneskja myndi liggja fyrir í þessari viku.
Þetta kom fram á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun þar sem fjallað var um breytingartillögu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána sem samþykkt voru í vor. Breytingartillagan er lögð fram til að fjölga frádráttarliðum við niðurfærslu húsnæðislána. Með öðrum orðum er verið að fjölga þeim aðgerðum lánastofanna sem dragast frá endanlegri upphæð hvers og eins.
Hagnaður og tap
Ástæða þess að ESA fylgist með framkvæmdinni er sú að mjög mismunandi er hvort lánveitendur séu að hagnast niðurgreiðslu ríkissjóðs á höfuðstóli húsnæðislána. Í lögunum sem samþykkt voru í maí síðastliðnum segir að miða skuli við „að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðila vegna greiðslu ríkissjóðs á leiðréttingahluta láns“.
Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að ekki liggi fyrir samkomulag við íslensku viðskiptabankana um aðferðarfræðina sem beita á við útreikninga á virði þeirra húsnæðislána sem á að höfuðstólslækka samkvæmt leiðréttingaáformum ríkisstjórnarinnar. Ástæða þessa er sú að viðskiptabankarnir munu væntanlega fá meira til baka af sumum lánum sínum vegna leiðréttingarinnar en þeir gátu vænst ef hún hefði ekki orðið að veruleika. Þeir eru því að „hagnast“ á framkvæmdinni. Sumir lífeyrissjóðir sem eru á fyrsta veðrétti á lánum til sjóðsfélaga sína „tapa“ hins vegar á því að fá þau uppgreidd, þar sem þeim standa ekki til boða sambærilegir fjárfestingamöguleikar fyrir það fé sem þeir fá í staðinn.
Samningsviðræður þeirra sem sjá um leiðréttingaráformin við Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka standa þó enn yfir og unnið er að útreikningum með það fyrir augum að lausn náist.
Frestast til mánaðarmóta
Tryggvi Þór Herbertsson, verkefnastjóri leiðréttingarinnar, sagði í samtali við Kjarnann í byrjun október að 95 prósent þeirra sem sóttu um höfuðstólslækkun verðtryggðra lána muni fá að vita hvort og þá hversu mikið þau munu fá um miðjan október. Í dag er 15. október.
Á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag kom fram að upplýsingar um upphæð niðurfellingar muni ekki líta dagsins ljós fyrr en í fyrsta lagi um næstu mánaðarmót.
Leiðrétting verðtryggðra húsnæðislána snýst um að ríkissjóður greiðir allt að 80 milljarða króna í niðurfærslur á verðtryggðum húsnæðislánum. Til þess að eiga möguleika á leiðréttingu þurfti fólk að sækja um og rann umsóknarfrestur út 1. September síðastliðinn. Alls bárust um 69 þúsund umsóknir áður en fresturinn rann út. Á bakvið þær standa um 105 þúsund manns.