Stjórn DV ehf hefur ákveðið að ráða Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Eggert Skúlason sem ritstjóra DV. Þá hefur Hörður Ægisson verið ráðinn viðskiptaritstjóri blaðsins. Verða þau Kolbrún, Eggert og Hörður jafnframt ritstjórar dv.is. DV mun næst koma út 9. janúar 2015 og í byrjun næsta árs verða kynntar margvíslegar breytingar á blaðinu.
Hallgrímur Thorsteinsson hættir sem ritstjóri DV en starfar áfram á vegum Pressunnar og mun leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarps. Þetta kemur fram í tilkynningu sem barst fjölmiðlum rétt í þessu.
Eggert Skúlason starfaði á árum áður við fjölmiðlun, meðal annars á Stöð 2. Undanfarin ár hefur hann rekið eigið almannatengslafyrirtæki og meðal annars starfað fyrir kröfuhafa föllnu bankana. Fyrirtæki Eggerts. Franca ehf.,var líka ráðið til að gera úttekt á DV eftir að nýir eigendur tóku við fjölmiðlinum í haust. Starfsmenn DV sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu úttektina illa unna og að hún virtist að mestu byggja á skoðunum úttektarhöfunda sjálfra.
Kolbrún Bergþórsdóttir starfaði síðast á Morgunblaðinu. Hún er þekktur bókmenntagagnrýnandi og hefur meðal annars starfað sem slíkur í þætti Egils Helgasonar, Kiljunni, sem sýndur er á RÚV. Hú var á árum áður yfirmaður menningarmála á Fréttablaðinu og starfaði einnig á Blaðinu sáluga.
Hörður Ægisson hefur starfað sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu undanfarin ár.
Í tilkynningu sem Steinn Kári Ragnarsson sendi á fjölmiðla segir að „til þess að ná fram skipulagsbreytingum og hagræða í rekstri var nokkrum starfsmönnum DV sagt upp í dag. Verða ennfremur gerðar breytingar á aðkeyptu efni í hagræðingarskyni. Er það í samræmi við markmið nýrrar stjórnar DV að félagið verði rekið með hagnaði árið 2015. Næsti útgáfudagur DV er föstudagurinn 9. janúar næstkomandi. Fréttavefurinn dv.is verður þó áfram rekinn allan sólarhringinn eins og verið hefur.
Í byrjun nýs árs verða kynntar margvíslegar breytingar á DV sem ætlað er að fjölga áskrifendum og auka lausasölu blaðsins. Jafnframt verður ráðist í ýmsar markaðsaðgerðir til að styrkja stöðu blaðsins, en það var stofnað sem dagblaðið Vísir árið 1910".