Ein breyting er á liði Íslands frá sigrinum gegn Kasakstan í síðasta leik. Emil Hallferðsson tekur sæti Eiðs Smára Guðjohnsen í byrjunarliðinu, sem þýðir að Jóhann Berg Guðmundsson fer af vængnum og í fremstu víglínu ásamt Kolbeini Sigþórssyni.
Fyrstir til að heyra byrjunarlið Íslands í leiknum þýðingarmikla gegn Tékklandi, sem fram fer á Laugardalsvelli í kvöld, voru meðlimir stuðningsmannahóps íslenska karlalandsliðsins, Tólfunni. Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari tilkynnti byrjunarliðið fyrir hópunum á Ölveri fyrr í dag.
Hannes Þór Halldórsson verður í markinu og vörnina fyrir framan hann skipa Birkir Már Sævarsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson og Ari Freyr Skúlason. Á miðjunni leika Emil Hallfreðsson, Aron Einar Gunnarsson fyrirliði, Gylfi Þór Sigurðsson og Birkir Bjarnason. Fremstir verða þeir Jóhann Berg og Kolbeinn Sigþórsson.
Á sama tíma og leikur Íslendinga og Tékka fer fram, eigast við Lettar og Hollendingar í Riga. Hollendingar verða að sigra ætli þeir sér að komast upp úr A-riðli á Evrópumeistaramótið í fótbolta sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Hollendingar stilla upp firnasterku liði sem hyggst blása til sóknar, en Klaas Jan Huntelaar og Robin van Persie eru báðir í byrjunarliði Hollendinga.
Þá má geta þess að Tyrkir, sem eru í fjórða sæti A-riðils, eru komnir yfir á móti Kasökum á útivelli.