Eiður Smári Guðjohnsen, markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi, verður hluti af hópi landsliðsins gegn Kasakstan í undankeppni EM, en leikurinn fer fram 28. mars í Astana í Kasakstan. Þetta kemur fram á vef Vísis, og er þar vitnað til heimilda.
Eiður Smári spilaði síðast fyrir Ísland á móti Króatíu í Zagreb í seinni leik umspilsins fyrir HM 2014 sem tapaðist 2-0. Fyrri leiknum laum með 0-0 jafntefli.
Eftir leikinn í Zagreb sagði Eiður Smári, grátklökkur, í viðtali við Hauk Harðarson, fréttamann RÚV, að hann teldi líklegt að þetta hefði verið sinn síðasti landsleikur.
Leikurinn gegn Kasakstan er gríðarlega mikilvægur, en Ísland er sem stendur í öðru sæti riðilsins, með níu stig eftir fjóra leiki. Tékkar eru í efsta sæti með fullt hús stiga.
Eiður Smári hefur leikið vel með Bolton í næst efstu deild á Englandi í vetur. Hann hefur spilað sautján leiki í deildinni og þrjá bikarleiki og skorað fjögur mörk.
https://www.youtube.com/watch?v=DrSUWAtpLs0