Sjávarútvegsfyrirtæki landsins greiddu sér samtals 13,5 milljarða króna í arð í fyrra. Það er meira en eigendur fyrirtækja í greininni greiddu sér í arð árið 2013, þegar arðgreiðslur námu 11,8 milljörðum króna, og meira en þeir greiddu sér samanlagt árin 2009 til 2011, þegar arðgreiðslur námu samtals 11,3 milljörðum króna. Þetta kom fram í máli Jónasar Gests Jónassonar, löggilts endurskoðanda og meðeiganda Deiloitte ehf., á Sjávarútvegsdeginum í Hörpu í morgun. RÚV greinir frá. Samtals hafa sjávarúvegsfyrirtæki landsins greitt sér 48,8 milljarða króna í arð vegna starfsemi sinnar frá árinu 2008.
Til samanburðar þá greiddu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki 8,1 milljarð króna í veiðgjöld til ríkissjóðs í fyrra. Veiðigjöldin námu því 60 prósent af þeirri upphæð sem greidd var út í arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja á því ári. Veiðigjöld hafa lækkað mikið á undanförnum árum. Þau voru 9,7 milljarðar króna árið 2013 en ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks réðst í breytingar á veiðileyfagjöldum skömmu eftir að hún tók við völdum með það fyrir sjónum að lækka það umtalsvert. Lækkun veiðigjalda átti koma fyrst fram að fullu árið 2015. Það hefur orðið raunin enda gera áætlanir ráð fyrir því að veiðigjöld í ár verði 5,3 milljarðar króna, eða rúmur helmingur þess sem þau voru árið 2013. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er þó gert ráð fyrir að þau hækki á ný á næsta ári og verði þá 7,9 milljarðar króna.