Eigendur Tals munu fá 19,78 prósent hlut í 365 miðlum samþykki Samkeppniseftirlitið samruna félaganna tveggja. Eignarhlutur félaga á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, sem hefur verið aðaleigandi 365 miðla um nokkurra ára skeið, minnkar við þetta niður í 77,97 prósent. Eigandi Tals í dag er félagið IP fjarskipti. Eigendur þess eru fagfjárfestasjóðurinn Auður 1, sem á 94 prósent hlut, og Kjartan Örn Ólafsson, sem á sex prósent hlut. Við þessa breytingu þynnist hlutur Ara Edwald, fyrrum forstjóra 365 miðla, í fyrirtækinu úr 6,2 prósentum í 2,25 prósent. Þessum upplýsingum var bætt inn á heimasíðu fjölmiðlanefndar í gær.
Auður 1 er framtakssjóður sem er rekstri fjármálafyrirtækisins Virðingar. Hann var stofnaður árið 2008 og þá lögðu rúmlega 20 fjárfestar honum til alls 3,2 milljarða króna. Tal er eitt átta fyrirtækja sem sjóðurinn á hlut í.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru stærstu fjárfestar sjóðsins íslenskir lífeyrissjóðir, þó þar sé einnig að finna einstaklinga. Lífeyrissjóðir landsins verða því óbeinir eigendur að stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins verði samruninn samþykktur.
Þarf að upplýsa um endanlega eigendur
Þeir fjárfestar sem leggja framtaks- og fjárfestingasjóðum eru vanalega ekki opinberlega nafngreindir. Það gæti hins vegar orðið raunin með eigendur Auðar 1.
Í fjölmiðlalögunum sem samþykkt voru árið 2011 segir að skylt sé að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Ætla sér stóra hluti á fjarskiptamarkaði
365 virðist ætla sér að stóra hluti á fjarskiptamarkaði í nánustu framtíð. Fyrirtækið tryggði sér fyrir nokkru nokkur leyfi fyrir 4G uppbyggingu, er byrjað að selja nettengingar og tengja þær sérstaklega við áskrift að sjónvarpsmiðlum 365 og réð Sævar Frey Þráinsson, fyrrum forstjóra Símans, sem forstjóra í sumar. Samrunin við Tal er enn eitt skrefið í þeirri vegferð. Sá samruni er þó bundinn samþykki Samkeppniseftirlitsins, enda er 365 langstærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins í einkaeigu og með markaðsráðandi stöðu á flestum sviðum auglýsingamarkaðarins á Íslandi.
Jón Ásgeir Jóhannesson hefur verið mjög tengdur 365 miðlum undanfarinn rúman áratug, fyrst sem aðaleigandi og nú sem eiginmaður aðaleigandans, Ingibjargar Pálmadóttur.
Nokkur félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur verða áfram helstu eigendur 365 verði samruninn við Tal að veruleika. Þau tóku við eignarhaldinu af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiginmanni Ingibjargar, sem fékk að kaupa fjölmiðla 365 skömmu eftir hrun. Hann hafði einnig verið aðaleigandi gamla 365, sem fór síðar í þrot og gat ekki greitt kröfuhöfum sínum um 3,7 milljarða króna.