Eiginfjárstaða, eignir að frádregnum skuldum, batnaði hjá öllum fjölskyldugerðum á Íslandi í fyrra. Alls jókst hún um 14,4 prósent, fór úr 2.194 milljörðum króna í 2.510 milljarða króna. Eiginfjárstaðan batnar mest, á bilinu 36 til 253 prósent, hjá aldurshópnum 25 til 44 ára sem einkum má rekja til bættrar eiginfjárstöðu í fasteignum, en húsnæðisverð hækkaði skarpt í fyrra auk þess sem áhrif skuldaleiðréttingar ríkisstjórnarinnar höfðu mikil áhrif þar sem 40 milljarðar króna voru greiddir inn á leiðréttingarlán á árinu 2014.
Þetta kemur fram í tölum sem Hagstofa Íslands birti um eignir og skuldir einstaklinga í morgun.
Þá fækkaði fjölskyldum sem voru með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign sinni samhliða hækkandi fasteignaverði og útgreiðslu leiðréttingarinnar um 27 prósent og eignir einstaklinga jukust um 4,1 prósent.
Heildarskuldir heimilanna í landinu drógust hins vegar ekki mikið saman, þrátt fyrir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Þær minnkuðu um 1,3 prósent, einkum vegna skuldalækkunar hjá einstæðum foreldrum og hjónum með börn. Skuldir jukust hins vegar hjá hjónum án barna og hjá einstaklingum.
Íbúðalán heimila í landinu voru 1.251 milljarðar króna í fyrra og jukust um 0,7 prósent milli ára. Aukning var aðallega hjá eldri aldurshópum. Í aldurshópnum 67 ára og eldri jókst hún um 8,5 prósent og á bilinu 1,5 til 5,2 prósent hjá fólki á aldrinum 50 til 66 ára.
Kjarninn mun fjalla ítarlega um tölurnar í fréttaskýringu síðar í dag.