Þrátt fyrir umdeilt lag, sem margir sögðu vera beinlínis stolið, og umdeildan flytjanda, sem hafði gerst sekur um fordóma í garð samkynhneigðra í viðtölum, sigruðu Svíar Eurovision söngvakeppnina, sem fram fór í Vínarborg í gærkvöldi, með nokkrum yfirburðum.
Úrslitin í gær komu í sjálfu sér ekki mikið á óvart, bæði vegna þess að flestir helstu veðbankar höfðu jú spáð Svíum sigri og þá sérstaklega í ljósi árangurs frænda vorra í keppninni undanfarin ár. Svíar sigruðu fyrst Eurovision söngvakeppnina árið 1974, en sigur Måns Zelmerlöw í gærkvöldi var sjötti sigur Svíþjóðar í keppninni. Aðeins Írar hafa unnið keppnina oftar, eða sjö sinnum, en árangur Svía í Eurovision undanfarin ár er einkar aðdáunarverður. Þjóðin hefur verið í efstu þremur sætunum í söngvakeppninni síðustu fimm ár.
Ísland reið ekki feitum hesti frá Eurovision þetta árið, þrátt fyrir að María Ólafsdóttir hafi gert sitt besta. Besti árangur Íslands í keppninni er annað sætið, en það gerðist síðast árið 2009. Ísland tók fyrst þátt í keppninni árið 1986, og er eitt þeirra sex landa sem aldrei hafa unnið keppnina. Hin fimm löndin eru Portúgal, Malta, Rúmenía, Ungverjaland og Kýpur.
Hér er pæling, og nú verða eflaust einhverjir brjálaðir. Hvernig væri að leita til frænda okkar í Svíþjóð og fá þá til að semja fyrir okkur Eurovision lag sem er líklegt til að sigra söngvakeppnina? Sænskir lagahöfundar eru þekktir um gjörvalla veröld fyrir grípandi lagasmíðar, og til að mynda Aserar leita reglulega í smiðju þeirra eftir lögum sem vænleg þykja til að gera vel í Eurovision, og sömuleiðis alþjóðlegar poppstjörnur á borð við Britney Spears.
RÚV myndi sjálfsagt ekki bjóða þeim greiðslu fyrir slíkt, og engin ástæða er til að breyta núverandi fyrirkomulagi á söngvakeppni RÚV, en kannski ætti hópur gallharðra Eurovision aðdáenda að efna til þjóðarsöfnunar fyrir sænsku/íslensku lagi. Bara pæling.