Í fyrradag bárust fréttir af því að breska fjármálaeftirlitið hefði lagt hæstu sekt í sögu stofnunarinnar á breska Barclays bankann, fyrir að misnota millibankavexti en lögbrotin náðu hámarki árið 2008.
Fjármálaeftirlitið í Bretlandi lagði 284 milljóna sterlingspunda sekt á bankann, en samtals þarf Barclays að greiða hinum ýmsu eftirlitsaðilum og stofnunum í Bretlandi og Bandaríkjunum 1,5 milljarða sterlingspunda vegna fjármálaglæpa í aðdraganda kreppunnar, eða litla 312 milljarða íslenskra króna.
Þetta er ekki fyrsta þunga sektin sem bankinn hlýtur vegna glæpsamlegra vinnubragða og þá eru dæmi um hundruð milljarða króna sektir sem stjórnvöld hafa lagt á banka í Bandaríkjunum fyrir lögbrot. Bankarnir hafa líka oftast séð hag sinn í því að semja um sektagreiðslu í stað þess að vera dregnir fyrir dóm og eiga þá á hættu að vera dæmdir til greiðslu enn hærri upphæða.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, opnaði á dögunum umræðuna um að mögulega eigi íslenska ríkið að stefna slitabúum föllnu bankanna til greiðslu skaðabóta vegna þess skaða sem þeir ollu íslensku samfélagi. Orðin lét Bjarni falla í tenglum við 500 milljóna evra neyðarlán Seðlabanka Íslands í kjölfar Al-Thani fléttunnar svokölluðu, á lokametrunum fyrir bankahrun.
Hér er pæling. Af hverju er ekki tekið til alvarlegrar skoðunar hvort íslenska ríkið eigi mögulega skaðabótakröfu á föllnu bankana vegna hrunsins og þeirra fjármuna sem þeir sólunduðu? Er það í alvörunni svo galið?