Stjórn Eikar fasteignafélags hefur tekið ákvörðun um að óska eftir skráningu hlutabréfa félagsins á markað og hefur fyrirtækjaráðgjöf Arion banka umsjón með söluferli og undirbúningi að skráningunni í kauphöll. Almenningi og stærri fjárfestum verður boðið að kaupa hlutabréf í félaginu í almennu útboði í aðdraganda skráningar sem gert er ráð fyrir að fari fram fyrir lok aprílmánaðar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Hagnaður Eikar eftir skatta nam 1,3 milljörðum króna í fyrra samanborið við 1,2 milljarða árið 2013. Rekstrartekjur námu tæplega fjórum milljörðum í fyrra og voru leigutekjur þar af 3,7 milljarðar. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 2,8 milljörðum, sem er 107% aukning frá árinu áður, að því er fram kemur í tilkynningu.
Á árinu var gengið frá kaupum félagsins á fasteignafélögunum EF1 hf. og Landfestum ehf. Með kaupunum stækkaði fasteignasafn Eikar fasteignafélags um 161.000 fermetra, að því er segir í tilkynningu.
Félagið hefur sett sér arðgreiðslustefnu um að greiða árlega út arð sem nemur 35% af handbæru fé frá rekstri hvers árs, að því er segir í fréttatilkynningu. Í samræmi við stefnuna mun stjórn félagsins leggja til við aðalfund, sem haldinn verður 21. maí næstkomandi, að greiddur verði út 580 milljóna arður til hluthafa á árinu 2015 vegna rekstrarársins 2014.
Í eignasafni Eikar er húsnæði sem samtals er með um 270 þúsund fermetra, samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef félagsins. Innan eignasafnsins eru meðal annars fjölmargar eignir í miðborginni, auk Smáratorgs 3 í Kópavogi og Glerártorgs á Akureyri, svo fátt eitt sé nefnt.