Fasteignafélagið Eik verður skráð í Kauphöll Íslands í næsta mánuði. Þá ætlar Arion banki að bjóða til sölu allt að 14 prósent eignarhlut sinn í félaginu en frekari upplýsingar um stærð og fyrirkomulag þess verða birt í lýsingu Eikar þegar hún verður gerð opinber í aðdraganda útboðsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eik.
Stefnt er að því að útboðið verði haldið daganna 17. til 20. apríl næstkomandi.
Stærsti eigandinn sér um útboðið
Arion banki er stærsti eigandi Eik Fasteignafélags sem stendur með 14,2 prósent hlut. Fyrirtækjaráðgjöf bankans mun hafa umsjón með útboði á hlutum í félaginu. Aðrir stórir eigendur eru íslenskir lífeyrissjóðir, Vátryggingafélag Íslands og Íslandsbanki. Þá á Hagamelur ehf., sem er að stærstu leyti í eigu fjárfestingafélags Árna Haukssonar og Hallbjörns Karlssonar, 3,3 prósent hlut.
Eik sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Félagið á yfir eitt hundrað eignir sem eru metnar á 62 milljarða króna. Heildarfjöldi leigutaka 400.
Helstu eignir Eikar eru Borgartún 21 og 26, Nýi Glæsibær, Turninn í Kópavogi, Smáratorg og Austurstræti 5, 6, 7 og 17. Stærstu leigutakar eru Fasteignir ríkissjóðs, Húsasmiðjan, Landsbankinn, Rúmfatalagerinn, Skipti, Deloitte og VÍS.