Eimskip hefur kært leka á kæru Samkeppniseftirlitsins til Sérstaks saksóknara á hendur starfsmönnum félagsins og starfsmönnum Samskips til lögreglu. Eimskip telur að það megi ráða á umfjöllun Kastljóss um kæruna þann 14. Október síðastliðinn að þátturinn hafi haft kæruna undir höndum. Eimskip hefur einnig sent Fjármálaeftirlitinu og Kauphöll Íslands ábendingu um að með hinum ætlaða leka hafi mögulegt lögbrot verið framið auk þess sem félagið hefur sent Samkeppniseftirlitinu og Sérstökum saksóknara bréf þar sem það krefst „þess að fá afhent gögn sem tengjast umfjöllun Kastljóss“. Þetta kemur fram í tilkynningu Eimskips til Kauphallar Íslands fyrr í dag.
Kauphöll Íslands setti hlutabréf Eimskips á athugunarlista í kjölfar þess að Kastljós birti umfjöllun sína, enda komu þar fram upplýsingar sem eru verðmótandi. Virði félagsins lækkaði um þrjá milljarða króna næstu þrjá daganna eftir að umfjöllunin fór í loftið. Í tilkynningu Eimskips, þar sem málsatvik eru rakin ítarlega, kemur fram að „leki á rannsóknargögnum , og fjölmiðlaumræða í kjölfar hans, hefur nú þegar valdið hluthöfum félagsins tjóni. Þá hefur lekinn skaðað ímynd félagsins bæði hérlendis og erlendis“.
Hægt er að lesa tilkynningu Eimskips til Kauphallarinnar í heild sinni hér.