„Það er ekkert að því að menn taki stórt upp í sig í ræðustólnum, tali svo undan svíði, orðin úr ræðustólnum komi blóðinu á hreyfingu, menn fari með himinskautum og kalli fram í af hnyttni þegar það á við. En slíkt á ekkert skylt við fúkyrðaflaum, uppnefni, svigurmæli og meiðandi ummæli,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, í ræðu sinni við þinglok í dag.
Einar talaði um störf þingsins í vetur í ræðu sinni. Þingið var með allra lengstu þingum, þingfundir voru 147 og þingfundadagarnir 126. Fastanefndir þingsins héldu um 600 fundi. Þingfundir, umræður og atkvæðagreiðslur stóðu í um 830 klukkutíma, sem Einar segir miklu meira en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Lagafrumvörpin sem samþykkt voru í ár eru 105 og 22 ályktanir voru samþykktar.
Þá sagði hann daginn í dag vera sögulegan vegna þess að haftafrumvörpin tvö voru samþykkt sem lög í dag. Þau segir Einar að séu mikilvægasta og merkasta löggjöf þessa þings og þótt lengra væri leitað. „Segja má að samþykkt laganna í dag marki þáttaskil. Þessi lagasetning er einhver mikilvægasta varðan á leið okkar til framtíðar út úr hinum miklu efnahagsáföllum sem hér dundu yfir. Nú getur þing og þjóð horft til nýrra verkefna á komandi árum.“
Einar gagnrýndi líka þingstörfin og sagði þau ekki hafa gengið fyrir sig eins og hann hefði kosið. Hann lýsti yfir vonbrigðum með að ekki hafi tekist að halda starfsáætlun.
Allir væru sammála um að það þyrfti að endurskoða vinnubrögðin á Alþingi og nú vildi hann taka þingmenn á orðinu. Það væri mikilvægt að gera strax breytingar og allir þingmenn þyrftu að líta sér nær. Það væru þó ekki aðeins þingsköpin sem þyrfti að breyta heldur stjórnmálamenningunni, „sem hvílir eins og farg á þinginu.“
Hann sagði mikið í húfi, því Alþingi sé æðsta stofnun landsins og þurfi að öðlast þann trausta sess í huga þjóðarinnar sem það verðskuldi.