Fyrir skömmu tilkynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að á döfinni sé niðurfelling allra tolla, nema tolla á matvæli. Þetta á að gera í tveimur skrefum fram til 1. janúar 2017. Ýmsir aðilar hafa fagnað þessu, svo sem Neytendasamtökin og Viðskiptaráð, sem reiknaði út að með þessu lækki íslensk heimili útgjöld sín um 30 þúsund krónur á ári. Bæði þessi samtök, eins og reyndar fjölmargir aðrir, hafa bent á að mest myndu samt neytendur þessa lands græða ef tollar á matvæli yrðu felldir niður.
Það er bara rúmur mánuður frá því að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skilaði atvinnuvegaráðuneytinu skýrslu um mjólkurvöruframleiðslu á Íslandi. Fyrir skýrslunni hefur ekki farið neitt sérstaklega mikið, en innihald hennar er mjög merkilegt. Stofnunin hvetur til þess að tollar á mjólkurvörur verði afnumdir. Íslendingar hefðu hag af því að gera það einhliða, án þess að aðrir lækki sína tolla. Það sé ekki hægt að réttlæta töf á lækkun tolla með því að ekki hafi samist um lækkunina við önnur lönd. Því lagði stofnunin til að fyrsta skrefið í afnámi tolla á mjólkurvörur yrði afnám magntolla og lækkun verðtolla í 20%.
Þrátt fyrir þessa skýrslu og það mat fjölmargra aðila að lækkun eða niðurfelling matartolla myndi hagnast íslenskum neytendum mikið, aðhafast stjórnvöld ekkert í málinu og ætla ekki að gera. Þvert á móti kom í ljós í gær að magntollar á innfluttar búvörur hækka á næsta innflutningstímabili!
Ef Bjarni Benediktsson hefur skýrt það út með einhverjum hætti hvernig á því stendur að matartollar eiga að vera einu tollarnir í landinu hefur það að minnsta kosti farið framhjá þessum bréfritara hér. En skýringin er náttúrulega einföld, og hún heitir Framsóknarflokkurinn.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.