Nú hafa rúmlega 28 þúsund manns skrifað undir áskorun til forseta Íslands um að hann vísi í þjóðaratkvæðagreiðslu öllum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs. Kveikjan að undirskriftasöfnuninni er frumvarp sjávarútvegsráðherra um úthlutun makrílkvóta. Búið er að ræða frumvarpið í fyrstu umræðu á Alþingi, en mjög skiptar skoðanir eru um málið á Alþingi. Nú bætist við óánægja fjölmargra Íslendinga við málið.
Í gær sagði sjávarútvegsráðherrann Sigurður Ingi í viðtali við mbl.is, þegar hann gerði tilraun til að verja frumvarp sitt, „það eru einhvern veginn allir á móti þessu.“ Og hvað gerist þá? Það verður spennandi að sjá. Mun ríkisstjórnin reyna að keyra málið í gegn og hætta á að forseti Íslands setji málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, eða mun verða með þetta mál eins og nokkur önnur umdeild mál ríkisstjórnarinnar, og það látið deyja í nefnd? Það hlýtur að koma í ljós fljótlega, enda þingið komið á lokametrana og ekki búið að semja við stjórnarandstöðuna um eitt eða neitt er varðar þinglok.