Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tapaði fyrir starfsmönnum Fiskistofu, þegar deilur komu upp í sambandi við færslu á Fiskistofu til Akureyrar. Starfsmenn ráða því hvort þeir flytji til Akureyrar eða ekki, og eru flestir á því að fara ekki. Upphaflega stóð til að færa þessa sérhæfðu stofnun til Akureyrar, án þess að nokkur starfsmaður hefði áhuga á því, eða yfir höfuð að það væri ástæða til.
Það má reyndar taka umræðuna um það, hvort færsla á stofnun eins og þessari, frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar, geti verið hluti af byggðastefnu stjórnvalda. Svo virðist sem það hafi verið meginrökin að baki hugmyndinni um færslu, sem nú hefur verið skotin í kaf. Í það minnsta í bili. Ekkert annað virtist hafa kallað á að færa stofnunina, heldur en það mat ráðamanna, að þeim fyndist að stofnunin ætti frekar að vera á Akureyri en í Hafnarfirði.
Áhrifamesta byggðastefnan er yfirleitt sú, sem sprottin er frá ákvörðunum frumkvöðla, einkafjárfesta. Það hefur sýnt sig að vel má sjá góð fjárfestingartækifæri víða á landsbyggðinni, eins og blómlegur sjávarútvegur og ferðaþjónusta er gott dæmi um. Störf verða þá til upp úr áhættu einkafjárfestu, sem sjá hag í því að ráða fólk í vinnu, með von um auknar tekjur. Að þessu leyti ættu stjórnvöld frekar að einblína á að örva fjárfestingar á landsbyggðinni, með hvatningu til fjárfesta, stefnumörkun með sveitarfélögum og síðan styrkingu innviða, fremur en að færa opinber störf út á land. Sú byggðastefna er áhrifameiri, og skilar meiru til samfélagsins heldur en tilfærsla á störfum hjá hinu opinbera.