Kamran Keivanlou, sem á helmningshlut í einkahlutafélaginu 101 Austurstræti, sem er rekstraraðili og leyfishafi skemmtistaðarins Austur, krefst þess að kortafyrirtækið Borgun hætti viðskiptum við félagið Austurstræti 5, þar sem núverandi rekstur skemmtistaðarins sé ekki í samræmi við útgefið rekstrarleyfi.
Eins og Kjarninn hefur greint ítarlega frá standa yfir miklar deilur á milli tveggja eigendahópa 101 Austurstrætis ehf., annars vegar félagsins Alfacom Trading, sem er í eigu áðurnefnds Kamran Keivanlou, og fjölmiðla- og athafnamannsins Ásgeirs Kolbeinssonar og félags í eigu Styrmis Þór Bragasonar hins vegar.
Austur logar í illdeilum
Ásgeir og Styrmir hafa stefnt Alfacom vegna vanefnda á samningi um kaup á 101 Austurstræti, og félagið hefur set fram gagnstefnu þar sem krafist er riftunar á kaupssamningi. Þá hefur Kamran Keivanlou kært Ásgeir Kolbeinsson og fjármálastjóra skemmtistaðarins til lögreglu og sérstaks saksóknara fyrir fjárdrátt og önnuf meint fjármálamisferli. Ásgeir hefur sömuleiðis kært Kamran fyrir hótanir í sinn garð og fjölskyldu sinnar. Hljóðupptaka af meintum hótunum hefur verið afhent lögreglu, en Kamran vísar ásökunum á bug og neitar að hann sé á upptökunni.
Deilur eigendanna urðu til þess að Íslandsbanki sagði upp bankaviðskiptum við 101 Austurstræti og þá sagði Borgun sömuleiðis upp þjónustusamningi við félagið. Félagið Austurstræti 5 hefur hins vegar gert saming við kortafyrirtækið og tekur við greiðslum vegna reksturs Austurs.
Sýslumaður veitti viðvörun
Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti forsvarsmönnum Austurs viðvörun í síðustu viku, þar sem félagið Austurstræti 5 hafi ekki tilskylin leyfi fyrir rekstri skemmtistaðarins. Í bréfi Alfacoms til Borgunar er vísað í formlegt bréf frá sýslumanni þessa efnis. Forsvarsmaður Alfacom hefur krafist þess að lögregla loki skemmtistaðnum, á meðan deilur um kaupsamning og meint lögbrot standa yfir.
Í svari Borgunar við kröfu Alfacom þann 4. febrúar síðastliðinn taldi kortafyrirtækið sig ekki geta orðið við kröfu félagsins, og vísaði meðal annars til þess að ekki lægju fyrir nægjanleg gögn til stuðnings kröfugerðinni.
Alfacom ítrekaði kröfu sína við Borgun bréfleiðis á föstudaginn, og hefur sent Fjármálaeftirlitinu erindi vegna málsins.