Nánast allir prestar sem taka afstöðu til þess að gefa saman samkynja par í hjónaband í kirkju segja að þeir myndu með glöðu geði gera slíkt. Þetta kemur fram í könnun sem Fréttablaðið gerði á meðal 153 presta sem skráðir eru hjá Þjóðkirkjunni. Af þeim sem svöruðu sögðust 108 prestar að þeir myndu gifta samkynja par í kirkju en tveir sögðu nei, þeir myndu ekki gera slíkt. Af þeim prestum sem svöruðu vildu ellefu ekki taka þátt í könnuninni og einn sagðist óákvæðinn. Ekki náðist í 31 prest.
Hvorugur þeirra presta sem sögðu að þeir myndu ekki gefa saman samkynhneigða gerðu það undir nafni. Séra Geir Waage, sem oft hefur tjáð sig opinberlega um kirkjuna og hjónavígslur samkynhneigðra, vils ekki svara spurningu Fréttablaðsins og sagði hana einfaldlega ekki á dagskrá Þjóðkirkjunnar. „Á sínum tíma var þessari spurning svarað á Prestastefnu og síðan þá hefur ekkert breyst[...]Ég færist undan því að tjá mig um þetta yfirhöfuð, það er ekki tímabært. Þá verður að ræða þetta á allt öðrum forsendum og ekki í því samhengi sem fréttamiðlarnir setja málið fram. Prestur á ekki skyldur við aðra en sóknarbörn sín.“
Þegar 40 prestar lögðu fram tillögu á prestaþingi árið 2007 um að prestum yrði heimilt að gefa saman samkynhneigt fólk var hún felld. Í kjölfarið fjallaði Kastljós um málið. Á meðal viðmælenda þáttarins var Geir Waage sem sat fyrir svörum um þessa afstöðu kirkjunnar. Hægt er að horfa á umfjöllun Kastljóss, og svör Geirs, hér að neðan.
https://www.youtube.com/watch?v=uMIUCljKDx0#t=123
Opinberir starfsmenn
Hið svokallaða samviskufrelsi presta til að synja samkynhneigðum um hjúskaparvígslu í kirkju hefur verið mikið til umræðu undanfarið. Þegar ný hjúskaparlög voru samþykkt á Alþingi árið 2010 var þeim breytt með þeim hætti að þau ættu ekki lengur við um karl og konu. Í fyrstu grein laganna kemur fram að þau gildi um hjúskap tveggja einstaklinga, óháð kyni. Nokkrir aðilar hafa leyfi til að stofna til löglegs hjúskapar. Þeir eru prestar og forstöðumenn skráðra trúfélaga sem hafa sérstaka vígsluheimild samkvæmt lögum og borgaralegir vígslumenn (sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra).
Forsvarsmenn Þjóðkirkjunnar hafa hins vegar haft þá skoðun að prestar eigi að hafa samviskufrelsi til að ákveða hvort þeir vilji gifta samkynhneigða í kirkju. Þessi afstaða hefur nokkrum sinnum komið frá.
Þegar umræða um breytingar á lögum um staðfesta samvist stóð sem hæst síðla árs 2007 lagði þáverandi biskup, Karl Sigurbjörnsson, fram tillögu á Kirkjuþingi þar sem lögð var áhersla á að staðið yrði áfram við hefðbundin skilning Þjóðkirkjunnar á hjónabandinu og því var ekki gert ráð fyrir að samkynhneigðir einstaklingar gætu gengið í hjónaband.
Eftirmaður hans á biskupsstóli, Agnes M. Sigurðardóttir, hefur lýst því yfir opinberlega að hún vilji að prestar hafi rétt til að neita að gifta samkynhneigða. Það gerði hún í viðtali við DV skömmu eftir að hún var kjörin árið 2012. Hún hefur ekki tjáð sig um málið undanfarið. Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti og starfandi biskup, sagði hins vegar í fréttum Stöðvar 2 í vikunni að stjórnarskráin veitti prestum frelsi til skoðana og sannfæringar sem þeir gætu nýtt sér til að hafna því að gifta samkynhneigða.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra, en Þjóðkirkjan heyrir undir hennar ráðuneyti, er ósammála þessari túlkun biskupanna. Í svari við fyrirspurn á Alþingi um málið í september sagði hún að ríkissjóður greiði : "laun presta þjóðkirkjunnar og njóta þeir réttinda og bera skyldur sem opinberir starfsmenn[...]Sem opinberir starfsmenn mega prestar ekki mismuna fólki á grundvelli kynhneigðar."