Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, bar fulltrúa réttarfarsnefndar þungum sökum í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni, í umsjón Björns Inga Hrafnssonar, í gær.
Jón Steinar nefndi Eirík Tómasson, núverandi dómara við Hæstarétt og formann réttarfarsnefndar, sérstaklega á nafn og sagði frá því hvernig hann og aðrir nefndarmenn hefðu tryllst þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi innanríkisráðherra, skipaði þriggja manna nefnd til að skrifa frumvarp að nýjum dómstólalögum. Það hefði ekki fallið í kramið hjá réttarfarsnefndinni, sem hefði litið svo á að ráðherra hefði sniðgengið þá við skipun nefndarinnar.
Í viðtalinu sagði Jón Steinar: „Þeir urðu alveg trylltir yfir því, í einhverri reiði yfir því að þeim skyldi ekki vera falið að gera þetta. Og ég hef alveg spurnir af því að formaðurinn í réttarfarsnefnd og ritari hennar, Benedikt Bogason, þeir mættu í ráðuneytið og höfðu bara hátt. Og til dæmis á fundi þessarar nefndar veit ég, og jafnvel á fundi ráðherrans sjálfs, leyndi sér ekki að þeir töldu að framhjá sér hefði verið gengið.“
Í samtali við Kjarnann kveðst Eiríkur Tómasson ekki ætla að tjá sig um ummæli Jóns Steinars. „Ég ætla ekki að fara að standa í orðahnippingum við Jón Steinar.“
Eiríkur segir að réttarfarsnefnd hafi mætt á fund með innanríkisráðherra í eitt skipti síðasta sumar, þar sem mál sem nefndin hafði til meðferðar voru til umræðu. Þar hafi hugmyndin um millidómsstig verið rædd, en nefndin hafði þá fjallað töluvert um hvernig haga ætti tilhögun millidómsstigs. Eiríkur ætlar ekki að tjá sig að öðru leyti um hvað var rætt á fundinum með ráðherra.