Um helmingur af öllum auði í heiminum er nú í eigu hundraðshluta íbúa jarðar. Hin 99 prósent skipta á milli sín 49,6 prósent af auðinum, samkvæmt nýrri úttekt svissneska bankans Credit Suisse.
Til þess að tilheyra ríkari helmingnum þarf viðkomandi að eiga 400 þúsund krónur eða meira, en til þess að tilheyra þessu eina prósenti sem á meira en helminginn af öllum auði, þá þarf viðkomandi að eiga virði 95 milljóna króna eða meira.
Þessar tölur eru ekki óvæntar eða nýjar í þeim skilningi, að oft hefur það verið tekið saman áður, hvernig auði heimsins er skipt á milli hópa. Þessar tölur sýna samt sláandi veruleika. Í heimi sem batnandi fer, þegar horft er til fátæktar og þróunarstarfs, þá ætti þetta að vera fólki hvatning um að gera enn meira, því svo sannarlega mætti dreifa auðnum betur, með hagsmuni heildarinnar sem leiðarljós.