Ekkert fékkst upp í 65 milljón króna kröfur í bú Sero ehf., félags sem Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, átti hlut í. Skiptum á búi félagsins lauk 29. janúar 2013, nokkrum mánuðum áður en að Illugi varð ráðherra í ríkisstjórn. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Sero, sem er fyrir árið 2008, tapaði félagið rúmum hundrað milljónum króna á árunum 2007 og 2008. Eigið fé Sero var neikvætt um 153 milljónir króna í lok árs 2008.
Ráðherra segir frá gjaldþroti fyrirtækis
Illugi setti stöðuuppfærslu á Facebook í dag, vegna frétta af kaupum stjórnarformanns Orku Energy á íbúð hans, þar sem Illugi sagði meðal annars frá því að hann og eiginkona hans hafi orðið fyrir nokkrum fjárhagslegum áföllum fyrir nokkrum árum. „Hrunið lék okkur grátt eins og marga aðra af okkar kynslóð, gjaldþrot fyrirtækis sem ég og tengdafaðir minn heitinn áttum þýddi að á okkur féllu milljóna ábyrgðir og tekjumissir sem ég varð fyrir þegar ég tók mér launalaust leyfi frá þingstörfum gerði sitt. Við stóðum því frammi fyrir því að selja íbúð okkar eða eiga það á hættu að missa hana.“
Fyrirtækið sem varð gjaldþrota hét Sero ehf.og var líftæknifyrirtæki sem staðsett var á Skagaströnd. Félagið ætlaði sér meðal annars að vinna próteinvökva úr grásleppu sem annars yrði fargað til að framleiða bragðefni fyrir ýmis konar matvælaiðnað. Reksturinn gekk hins vegar ekki upp og Sero var úrskurðað gjaldþrota 8. nóvember 2012.
Skiptum í búinu lauk 29. janúar 2013 og voru kröfur í búið alls 65,4 milljónir króna. Engar eignir fundust í búinu og því fékkst ekkert upp í kröfurnar. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Sero, sem er fyrir árið 2008, átti Illugi tólf prósent hlut í félaginu. Samkvæmt hagsmunaskráningu á vef Alþingis árið 2009 hafði sá hlutur þá minnkað niður í tíu prósent.
Þungur rekstur
Stærstu eigendur Sero voru Einar Oddur Kristjánsson heitin, tengdafaðir Illuga, og Steindór Haraldsson. Einar Oddur átti 27 prósent hlut og Steindór 24 prósent en auk þess átti Torfahús, félag í eigu Einars Odds, 19 prósent. Auðhumla svf., móðurfélag Mjólkursamsölunnar, átti auk þess 17 prósent hlut. Teitur Björn Einarsson, bróðir eiginkonu Illuga og núverandi aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var framkvæmdastjóri félagsins.
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Sero nam tap félagsins 77,2 milljónum króna árið 2008 og 27,8 milljónum króna árið áður. Samtals námu skuldir Sero 187,2 milljónum króna í lok árs 2008 en eignir þess 34,5 milljónum króna. Eigið fé var því neikvætt um 152,7 milljónir króna á þeim tíma.