Ekkert var framleitt af nautakjöti í síðasta mánuði, samkvæmt samantekt Hagstofunnar um kjötframleiðslu í maí. Ástæðan er verkfall dýralækna frá seinni hluta apríl til 14. júní síðastliðinn, þegar lög voru sett sem bönnuðu verkfallsaðgerðir stéttarfélaga BHM. Í maí 2014 var framleitt um 290 tonn af nautakjöti, sem er flokkað af Hagstofunni í kálfa, ungnaut og kýr. Í lok maí 2014 var búið að framleiða um 1.400 tonn af nautakjöti samanborið við um 1.080 tonn á sama tímabili í ár.
Í frétt á vefsíðu Landssambands kúabænda frá 22. júní síðastliðnum er fjallað um samdrátt í nautakjötsframleiðslu í maí. Þar segir að aðeins 443 kíló af nautgripakjöti hafi verið lögð inn í afurðastöð í mánuðinum. Það er samdráttur upp á 99,8 prósent. „Af þessum tölum má ráða, að verkfallsaðgerðir eftirlitsdýralækna bitnuðu gríðarlega harkalega á kjötframleiðslunni í landinu og ollu miklu tjóni,“ segir í fréttinni en í henni er líka fjallað um slátrun alifugla og svína.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam framleiðsla á svínakjöti um 405 tonnum í maí samanborið við 513 tonn í maí 2014 og dróst þannig saman um fjórðung. Slátrun alifugla í maí dróst lítillega saman milli ára.
Í verslunum setti verkfall dýralækna svip sinn strax í byrjun maí, en þá var skortur á fersku kjúklingakjöti, nautakjöti og svínakjöti. Greint var frá í fjölmiðlum að svínabændur fengu undanþágur til slátrunar en með skilyrðum um að kjöt fær ekki í verslanir. Því var sölusamdráttur jafnframt mikill í mánuðinum en þær tölur liggja ekki fyrir hjá Hagstofunni.