Hæstaréttarlögmaðurinn Erlendur Gíslason, skiptastjóri þrotabús Baugs, hefur ekki fundið neinar vísbendingar um refsiverða háttsemi í gögnum þrotabúsins, og hefur þar af leiðandi ekki sent eitt einasta mál til rannsóknar hjá embætti Sérstaks saksóknara. Þetta staðfestir Erlendur Gíslason í samtali við Kjarnann.
Þrotabú Baugs hefur hins vegar leitað réttar síns á einkaréttarlegum forsendum, meðal annars með því að krefjast riftunar á kaupum Baugs á eigin bréfum sumarið 2008. Í fyrra rifti héraðsdómur greiðslum Baugs frá 11. júlí 2008 til Fjárfestingarfélagsins Gaums, Gaums Holding S.A. og Eignarhaldsfélagsins ISP. Heildarfjárhæð greiðslnanna nam um fimmtán milljörðum króna, en fjárhæðin var notuð til að greiða niður skuldir félaganna hjá Kaupþingi og Kaupthink Bank Luxembourg, sem seinna varð Banque Havilland.
Fjárfestingafélagið Gaumur og Gaumur Holding S.A. voru þá stærstu eigendur Baugs, en félögin voru í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Ásu Ásgeirsdóttur, Jóhannesar Jónssonar og Kristínu Jóhannesdóttur. Þá var og er eignarhaldsfélagið ISP í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu Jóns Ásgeirs.
Í síðasta mánuði snéri Hæstiréttur við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi kröfu þrotabús Baugs gegn Banque Havilland og dæmdi bankann til að greiða búinu 1,3 milljarða króna. Í nóvember verður flutt mál í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem hlutur Kaupþings verður tekinn fyrir. Þar krefst þrotabúið að Kaupþing endurgreiði þrettán milljarða króna.
Í samtali við Kjarnann segir Erlendur Gíslason að niðurstaðan í Banque Havilland málinu hafi jákvæð áhrif á uppgjör þrotabúsins, þó aðeins um örfá prósent. Þá sé ljóst að jákvæð niðurstaða í Kaupþingsmálinu muni hafa sambærileg áhrif.
Samþykktar kröfur í þrotabú Baugs nema rúmum hundrað milljörðum króna, en tæplega 400 milljarða kröfum var lýst í búið. Líklegar heimtur í þrotabúið eru nú í kringum eitt prósent, en þær gætu farið í yfir fimm prósent ef áðurnefnt mál gegn Kaupþingi vinnst.