Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að í sínum huga sé ekki „allur munurinn á því hvort að ráðuneytið hefði keypt húsnæði af Landsbankanum í þessu húsi eða byggt hinu megin við götuna, við Skúlagötuna, jafn dýrt húsnæði á jafn dýrum stað.“
Þetta kom fram í viðtali hans við Dagmál á mbl.is sem birt var í gær, þegar rætt var um tillögu sem lögð var fram á ríkisstjórnarfundi nýverið um að ríkissjóður myndi kaupa hluta af nýjum höfuðstöðvum Landsbankans á sex milljarða króna undir utanríkisráðuneytið, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir stýrir, og nýlegt ráðuneyti háskóla-, nýsköpunar og iðnaðar, sem er undir stjórn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Hitamál í ríkisstjórninni
Kjarninn greindi frá því 22. júlí síðastliðinn að tillaga um að kaupa nokkur þúsund fermetra af húsnæði í svokölluðu norðurhúsi nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn sem nú eru að rísa á sex milljarða króna hefði verið lögð fram á ríkisstjórnarfundi í sumar.
Viðmælendur Kjarnans segja að kaupin á hinu svokallaða norðurhúsi Landsbankahöfuðstöðvanna hafi verið teiknuð upp í ráðuneyti Bjarna.
Bankinn gæti farið annað og selt eignina
Bygging höfuðstöðva Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, hefur verið verulega umdeild. Byggingin er að rísa á einni dýrustu lóð sem hægt er að byggja á í Reykjavík og sú málsástæða Landsbankans að hann þyrfti að vera með höfuðstöðvar í miðborginni hefur verið dregin verulega í efa.
Ákvörðunin hefur verið rökstudd með því að Landsbankinn sé í of mörgum stöðum með starfsemi sína, sem er dreifð víða um miðborgina. Með því að koma öllum á sama stað myndi verða til mikil hagræðing auk þess sem hægt yrði að selja annað húsnæði bankans upp í kostnað.
Upphaflega var kostnaður áætlaður níu milljarðar króna en hann hefur síðan vaxið upp í tólf milljarða króna.
Í viðtalinu við Dagmál sagði Bjarni að þegar upp sé staðið þá haldi hann að Landsbankinn muni halda á eign sem geti vel staðið undir sér. Þetta sé líklega dýrasti staður í Reykjavík til að byggja á og hann sjái ekki neina rökbundna nauðsyn á því að höfuðstöðvar bankans rísi þar. „En í stóra samhengi hlutanna, við efnahag bankans, þá er þetta ekki það sem ræður úrslitum um afkomuna. Þetta verður alltaf eign sem á endanum leiðir kannski til þess að bankinn fer kannski eitthvert annað. Þá mun hann bara selja þessa eign. Ég veit ekkert um það. Þetta eru ákvarðanir sem eru teknar á öðrum vettvangi en við ríkisstjórnarborðið.“
Ekkert athugavert við staðsetningu stjórnsýslunnar
Einn af þeim valkostum sem skoðaðir hefðu verið fyrir uppbyggingu stjórnarráðsins væri sá að hluti höfuðstöðvanna sem Landsbankinn væri að byggja, og ætlaði sér alltaf að selja eða leigja út, gæti nýst undir ráðuneyti. „Það hefur verið skoðað og það hafa verið skiptar skoðanir um það hvort að það væri hentugt eða hvort að það væri of dýrt og svo framvegis. Auðvitað er stjórnarráðið alltaf á dýrustu reitum Íslands.“
Það væri í sjálfu sér ekkert athugavert við að stjórnsýslan væri staðsett miðlægt í höfuðborginni, þar sem dýrast er að byggja eða kaupa. „Í mínum huga er ekki allur munurinn á því hvort að ráðuneytið hefði keypt húsnæði af Landsbankanum í þessu húsi eða byggt hinu megin við götuna, við Skúlagötuna, jafn dýrt húsnæði á jafn dýrum stað.“