Ekkert hefur verið lagt til hliðar vegna leiðréttingu launa bankanstjóra Landsbankans, Steinþórs Pálssonar, frá árinu 2013. Í ársskýrslu bankans vegna ársins 2012 voru 47 milljónir króna færðar sem varúðarfærsla vegna „hugsanlegra leiðréttinga eða afturvirkra breytinga á launum og starfskjörum bankastjóra á árunum 2011 og 2012“.
Kjarninn spurðist fyrir um hvort meira fé hefði verið lagt fyrir vegna þessarrar mögulegu leiðréttingar síðustu ár. Í svari bankans kemur fram að svo hafi ekki verið. Ef eitthvað hefði verið lagt til hliðar hefði það komið fram í uppgjörum, afkomutilkynningum sem og ársskýrslu bankans.
Má ekki vera með hærri laun en forsætisráðherra
Íslenska ríkið er aðaleigandi Landsbankans og því falla starfskjör bankastjóra undir lög um kjararáð, sem sett voru eftir bankahrun. Samkvæmt þeim mega þeir sem undir ráðið heyra ekki vera með hærri laun en forsætisráðherra.
Bankaráð og stjórnendur Landsbankans hafa verið ósátt með þetta fyrirkomulag og telja að þau kjör sem bankinn geti boðið séu ekki samkeppnishæg við kjör stjórnenda í stærri fyrirtækjum á fjármálamarkaði. Bankaráðið sendi meðal annars erindi til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) þar sem það kvartaði yfir gildandi fyrirkomulagi og taldi það geta brotið í bága við stjórnarskrá og samninginn um Evrópska efnahagssvæðisins. ESA ákvað hins vegar ekki að að hafast neitt í málinu.
Samkvæmt síðasta birta ársreikningi Landsbankans voru laun Steinþórs Pálssonar árið 2014 um 1,5 milljón króna. Auk þess fékk hann hlutabréfatengdar greiðslur upp á um 175 þúsund krónur á mánuði en kostnaður vegna bifreiðahlunninda og nettengingar á heimili bankastjórans voru dregin af launum hans.
Sjö framkvæmdastjórar Landsbankans, sem heyra ekki undir lög um kjararáð, voru með hærri laun en bankanstjórinn í fyrra. Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka var með 4,3 milljónir króna á mánuði og Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, með um þrjár milljónir króna á mánuði. Bæði Arion banki og Íslandsbanki hafa auk þess tekið upp kaupaukakerfi sem juku tekjur bankastjóra þeirra.