Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands greiddi atkvæði gegn því að lækka stýrivexti bankans í byrjun nóvember og vildi halda þeim óbreyttum. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um að lækka stýriveti um 0,25 prósent en einn þeirra hafði „Þó heldur kosið að halda vöxtum óbreyttum að þessu sinni“. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í gær.
Stýrivextir voru lækkaðir í fyrsta sinn í um tvö ár þann 5. nóvember síðastliðinn. Þá voru vextirnir lækkaðir niður í 5,75 prósent. Þeir eru samt sem áður með þeim hæstu í hinum vestræna heimi.
Ekki tilgreint hver var á móti
Í fundargerðinni kemur fram að sá nefndarmaður sem greiddi atkvæði gegn lækkuninni hafi latið að „þrátt fyrir mikinn árangur að undanförnu snerist vaxtaákvörðun hverju sinni um að hafa áhrif á þróunina fram á við en ætti ekki að endurspegla nýliðna þróun. Þótt gert væri ráð fyrir því að verðbólga hjaðnaði enn frekar á næstunni væri, litið lengra fram á veginn, búist við að hún þokaðist aftur upp vegna verðbólguþrýstings frá vinnumarkaði og minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum. Þótt langtímaverðbólguvæntingar hefðu nú færst nær verðbólgumarkmiði bankans væri rétt að stíga varlega til jarðar í ljósi sögunnar og horfa á vinnumarkaði. Óvissan um verðbólguhorfur væri einnig heldur meiri upp á við“.
Nefndarmenn í peningastefnunefnd eru Már Guðmundsson seðlabankastjóri, sem er formaður nefndarinnar, Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Gylfi Zoëga og Katrín Oddsdóttir. Ekki kemur fram í fundargerðinni hver þeirra var á móti lækkuninni.