Ingvar Hjartarson, sem kom annar í mark á eftir Arnari Péturssyni í Víðavangshlaupi ÍR sem fram fór á fimmtudaginn, hefur sent hlaupstjórn formlega fyrirspurn vegna framkvæmdar hlaupsins þar sem hann krefst skýringa á brotalömum við dómgæslu. Þá vill hann að kærufrestur hlaupsins verði endurskoðaður í ljósi þess að gögn hafi ekki legið fyrir áður en fresturinn rann út. Kjarninn hefur erindi Ingvars til ÍR undir höndum.
Lokasprettur Arnars, sem er ríkjandi Íslandsmeistari karla í maraþoni, í Víðavangshlaupinu hefur vakið athygli og heitar umræður í hlaupasamfélaginu, eftir að myndband birtist á RÚV þar sem sést hvernig Arnar styttir sér leið í síðustu beygju hlaupabrautarinnar og nær þar með forskoti á keppinaut sinn. Vegna ábendinga eftir að hlaupi lauk hefur hlaupstjórn Víðavangshlaupsins leitað álits hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands (FRÍ) um hvort reglur um götuhlaup hafi verið brotnar í umrætt sinn.
https://vimeo.com/126132945
Í frétt Kjarnans, sem birtist í morgun, segir Ingvar að hann hafi ekki tekið eftir því þegar Arnar stytti sér leið í hlaupinu. „Maður er svo mikið í sínum eigin heimi, þannig að ég missti af þessu. En eftir að ég kom í mark komu fjölmargir að máli við mig og sögðu mér hvað hefði gerst. Ég sá svo ekki atvikið með mínum eigin augum fyrr en ég sá myndbandið á RÚV, en þá var orðið of seint að kæra úrslitin, sem ég hefði gert hefði ég vitað af kærufrestinum,“ sagði Ingvar í samtali við Kjarnann.
Krefur ÍR skýringa á brotalömum við framkvæmd hlaupsins
Í áðurnefndri fyrirspurn sem Ingvar sendi Sigurði Þórarinssyni hlaupstjóra Víðavangshlaupsins í morgun, krefst hann þess að fá að vita til hvaða einstaklinga eða nefndar innan FRÍ hafi verið leitað og hvort það sé ekki hlutverk brautarvarða að tilkynna ef hlaupari brýtur reglur hlaupsins. Þá veltir hann fyrir sér hvort framkomið myndband af atvikinu, breyti ekki einhverju um afstöðu hlaupanefndarinnar.
„Ég sé ekki almenninlega hvað gerðist fyrr en í gær þegar að ég sé myndbandið á netinu. Mér þykir afskaplega slakt ef að keppandi þurfi að kæra þegar að brautarverðir og stjórnarmeðlimur FRÍ sjá þetta og geta horft framhjá þessu þegar þeir sjá þetta miklu betur en ég. Auk þess vissi ég ekki um þennan kærufrest því ég heyrði eftir hlaupið að það væri 2-3 daga kærufrestur. Það er t.d. ekki hlutverk keppenda að kæra þegar langstökkvari stígur yfir línu í stökki heldur eru starfsmenn sem dæma þá um stökkið,“ skrifar Ingvar Hjartarson í erindi til hlaupstjóra Víðavangshlaupsins.
Samkvæmt frétt á Vísi er von á yfirlýsingu frá ÍR vegna málsins síðar í dag, en ekki standi til að breyta úrslitum Víðavangshlaupsins. Þá muni álit FRÍ á atvikinu sömuleiðis fylgja yfirlýsingu ÍR.