Skattgreiðendur eru aldrei langt undan þegar bankar eru annars vegar. Breskir skattgreiðendur fengu í gær reikning upp á einn milljarð punda, jafnvirði ríflega 200 milljarða króna, sem rekja má til þess þegar breska ríkið lagði 45,5 milljarða punda inn í Royal Bank of Scotland haustið 2008, vegna þess að hann var talinn vera of stór til að falla. Fyrir 5,4 prósent hlut fengust 330 pens á hlut en þegar ríkið tók yfir rúmlega 80 prósent hlutafjár, með því að leggja fyrrnefnda upphæð inn í hann, var það gert miðað við verðmiðann 500 pens á hlut.
Eftir gengdarlausan taprekstur og hagræðingarskeið, sem nemur tæplega 50 milljörðum punda þegar allt er talið, er breska ríkið nú byrjað að selja hlut sinn í bankanum með það að markmiði að hámarka endurheimtur. Ef þetta verður verðmiðinn í viðskiptunum framvegis, það er þegar afgangurinn af 73 prósent eignarhlut breska ríkisins verður seldur, þá tapar það fimmtán milljörðum punda, eða sem nemur ríflega 3.100 milljörðum króna.
Of stór til að falla. En ekki of stór til að falla í fangið á skattgreiðendum...