Verkfall lækna er hafið að nýju. Samningafundi Læknafélags Íslands og íslenska ríkisins var frestað um þrjúleytið í nótt og hefur nýr fundur verið boðaður klukkan tvö. Það þýðir að boðuð verkfallslota hófst á miðnætti. Hún á að standa í fjóra sólarhringa. Í þessari lotu eru það læknar á aðgerðarsviði og flæðasviði, hjá Sjúkratryggingum ríkisins, Tryggingastofnun, Greiningastöð ríkisins, Heyrnar- og talmeinastöðinni, Vinnueftirlitinu, Lyfjastofnun, Landlækni og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem leggja niður störf. Verkfall skurðlækna hefur verið boðað frá og með 12. janúar næstkomandi náist ekki að semja við þá. Þær viðræður eru ekki hluti af viðræðum Læknafélags Íslands við ríkið og enn hefur ekki verið boðaður nýr fundur í kjaradeilu skurðlækna.
Á vef RÚV er haft eftir Gunnari Björnssyni, formanns samninganefndar ríkisins, að sumu hafi miðað á fundinum í nótt en öðru ekki. Hænuskref séu þó líka skref.
160 aðgerðir frestast og konur komast ekki í keisaraskurð
Nú þegar hefur þurft að fresta um 700 skurðaaðgerðum, um 100 hjartaþræðingum, 800 myndgreiningarrannsóknunm og þrjú þúsund dag- og göngudeildarkomum vegna verkfallsaðgerða lækna. Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að sex barnshafandi konur bíða þess að fara í valkvæðan keisaraskurð. Vegna verkfallsins er mögulegt að þeir muni ekki eiga kost á því að fara í aðgerðina á þeim tíma sem ákveðið var. Konurnar sem um ræðir eru mjög uggandi vegna ástandsins og eru undir sérstöku eftirliti.
Afleiðingar verkfallsins, náist ekki að semja, verða meðal annars þær að 160 aðgerðir frestast í fyrstu viku þess. Í Morgunblaðinu í dag segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landsspítalanum, að algjört ófremdarástand muni fylgja verkfallinu. „Þá verður heildarbiðlistinn eftir aðgerðum orðinn óheyrilega stór og það verður engin leið að stjórna honum almennilega. Það mun taka marga mánuði að vinna hann niður".