Fjölmiðlanefnd verður ekki upplýst um hverjir endanlegir eigendur 18,6 prósent hlutar í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum eru og mun ekki fara fram á frekari upplýsingar um þá. Þetta staðfestir Elva Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri nefndarinnar, í samtali við Kjarnann.
Í fjölmiðlalögunum sem samþykkt voru árið 2011 segir að skylt sé að veita fjölmiðlanefnd öll gögn og upplýsingar svo „rekja megi eignarhald og/eða yfirráð til einstaklinga, almennra félaga, opinberra aðila og/eða þeirra sem veita þjónustu fyrir opinbera aðila og getur fjölmiðlanefnd hvenær sem er krafist þess að framangreindar upplýsingar skuli veittar“.
Og nú er ljóst að það breytir engu þótt slíkur sjóður sé orðinn eigandi að langstærsta fjölmiðlafyrirtæki í einkaeigu í landinu, sem rekur meðal annars Fréttablaðið, Stöð 2, Vísi.is og Bylgjuna.
Síðastliðinn föstudag var send út tilkynning um að 365 miðlar og Tal hafi sameinast undir merkjum 365 eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna, með skilyrðum. Við það eignuðust fyrrum hluthafar Tals 19,8 prósent hlut í sameinuðu félagi, sem mun bera nafn 365 miðla. Stærsti eigandi Tals er Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert. Og nú er ljóst að það breytir engu þótt slíkur sjóður sé orðinn eigandi að langstærsta fjölmiðlafyrirtæki í einkaeigu í landinu, sem rekur meðal annars Fréttablaðið, Stöð 2, Vísi.is og Bylgjuna.
Í fjölmiðlanefnd, sem tók ákvörðun um miðjan nóvember um að kalla ekki eftir upplýsingum um endanlegt eignarhald á 18,6 prósent hlut í 365 miðlum, sitja Karl Axelsson, formaður nefndarinnar, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Hulda Árnadóttir, Arna Schram og Salvör Nordal.
Eigendur ekki taldir skipta máli
Auður 1 er framtakssjóður sem er rekstri fjármálafyrirtækisins Virðingar. Hann var stofnaður árið 2008 og þá lögðu rúmlega 20 fjárfestar honum til alls 3,2 milljarða króna. Tal er eitt átta fyrirtækja sem sjóðurinn á hlut í. Heimildir Kjarnans herma að á meðal stærstu eigenda hans séu íslenskir lífeyrissjóðir auk þess sem nokkrir einstaklingar eiga í sjóðnum en það hefur aldrei verið upplýst hverja um er að ræða.
Við fengum þær upplýsingar að Virðing færi með yfirráð yfir Auði 1 og það væri byggt á því að starfsmenn Virðingar væru stjórnarmenn í Auði 1 og héldi á meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Því skipta eigendur sjóðsins ekki máli.
Fjölmiðlanefnd leitaði eftir upplýsingum um eignarhaldið í haust, að sögn Elvu. „Við fengum þær upplýsingar að Virðing færi með yfirráð yfir Auði 1 og það væri byggt á því að starfsmenn Virðingar væru stjórnarmenn í Auði 1 og héldi á meirihluta atkvæðisréttar í félaginu. Því skipta eigendur sjóðsins ekki máli. Þeir hafi ekkert að gera með stefnu sjóðsins, heldur Virðing. Út frá fjölmiðlalögunum eru það yfirráðin sem skipta öllu máli.“
Í kjölfarið hafi fjölmiðlanefnd tekið þá ákvörðun að ekki þyrfti að upplýsa nánar um hverjir endanlegir eigendur Auðar 1 væru. „Það var mat nefndarinnar, út frá þessum upplýsingum, að út frá eignarhaldinu skipti ekki máli hverjir væru eigendurnir, heldur hverjir færu með yfirráð yfir sjóðnum. Og það er Virðing,“ segir Elva.
Nokkur félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur verða áfram helstu eigendur 365 miðla. Þau tóku við eignarhaldinu af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eiginmanni Ingibjargar, sem fékk að kaupa fjölmiðla 365 skömmu eftir hrun. Hann hafði einnig verið aðaleigandi gamla 365, sem fór síðar í þrot og gat ekki greitt kröfuhöfum sínum um 3,7 milljarða króna.
Samruni samþykktur með skilyrðum
Samkeppniseftirlitið tilkynnti í dag um að samruni 365 miðla og Tals hefði verið samþykktur með skilyrðum. Alls er um fjögur skilyrði að ræða:
- Óheimilt er að gera það að skilyrði fyrir kaupum á þjónustu sem fyrirtækið veitir á fjölmiðlamarkaði að fjarskiptaþjónusta félagsins fylgi með í kaupunum.
- Óheimilt að tvinna saman í sölu fjölmiðlaþjónustu fyrirtækisins og fjarskiptaþjónustu þess gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna má til slíks skilyrðis. Óheimilt er að gefa einstaka þjónustuþætti í heild sinni.
- Þá er tiltekið að innleiðingu og uppbyggingu þjónustu á farsíma- og sjónvarpsdreifingarmarkaði skuli lokið eigi síðar en 1. apríl 2016 og taka skilyrði þá að fullu gildi gagnvart þeirri þjónustu. Að öðru leyti taka skilyrðin strax gildi.
- Gæta skal gagnsæis í verðlagningu mismunandi þjónustuþátta fyrirtækisins.