Ekki er víðtækur stuðningur innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins við húsnæðisbótafrumvarp og frumvarp um félagslegt húsnæðiskerfi, samkvæmt því sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Áður hafði fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins gagnrýnt fyrrnefnda frumvarpið. Samkvæmt blaðinu þurfa frumvörpin að "taka verulegum breytingum" til að þingmenn flokksins styðji þau.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir í Morgunblaðinu að ríkisstjórnin hafi lýst því yfir í tengslum við kjarasamninga að hún hefði í hyggju að leggja þetta meðal annars til og að samþykkt hafi verið í ríkisstjórn að leggja fram frumvörpin. "Aðilar vinnumarkaðarins líta svo á að þessar breytingar á húsnæðiskerfinu séu hluti af samkomulagi þeirra og forsenda fyrir gerð kjarasamninga. Ég hef ekki heyrt neitt annað frá forystu Sjálfstæðisflokksins, en að menn hafi í hyggju að standa við það, enda stóð öll ríkisstjórnin að þessari yfirlýsingu."
Vinna við þessi frumvörp, og önnur frumvörp tengd breytingum á húsnæðiskerfinu, mun halda áfram í sumar. Eygló vonast til þess að hægt verði að koma fram með málin á fyrstu dögum haustþings.
Áttu að ganga fram í vor, en gerðu það ekki
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að ekkert af fjórum húsnæðisfrumvörpum Eyglóar hafi náð fram að ganga á þingi í vetur, þvert á yfirlýsingar. Eygló hafði talað um það í vetur að húsnæðismálin yrði að klára á þessu þingi og að jafnvel ætti að halda sumarþing til þess að klára þau. Jafnvel þótt þingið hafi starfað langt fram á sumar komust málin ekki úr nefnd.
Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar voru boðuð fjögur frumvörp um húsnæðismál á liðnum vetri. Það voru frumvarp til laga um húsnæðisbætur, um húsnæðissamvinnufélög, um breytingu á húsaleigulögum og um húsnæðismál, en hið síðastnefnda fjallar um stofnstyrki til félagslegs leiguhúsnæðis. Breytingar á húsaleigulögum og frumvarp um húsnæðissamvinnufélög komu inn í þingið 1. apríl. Hins tvö frumvörpin létu hins vegar á sér standa, eða þar til frumvarp um húsnæðisbætur kom inn í þingið þann 8. júní. Þá var orðið ljóst að frumvarp um stofnstyrki yrði ekki lagt fram fyrr en í haust. Þrjú frumvarpanna komu sem sagt fram, og þau voru öll til umfjöllunar í velferðarnefnd þegar þingið lauk störfum. Því er ljóst að leggja þarf þau fram aftur á haustþinginu.
Voru hluti af sátt á vinnumarkaði
Þann 28. maí kynnti ríkisstjórnin sínar aðgerðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga. Þar á meðal var yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál. Þar var meðal annars að finna loforð um tvö þessarra mál, stofnstyrki til uppbyggingar félagslegs leiguíbúðakerfis og nýtt húsnæðisbótakerfi. Í yfirlýsingunni kemur fram að frumvarpið um húsnæðisbætur ætti að að koma fyrir vorþing í ár og önnur frumvörp á haustþingi, þau ætti að afgreiða fyrir áramót.
Þann 8. júní var svo frumvarpið um húsnæðisbætur lagt fram á þinginu, þrátt fyrir að umsögn fjármálaráðuneytisins um það hefði sýnt að ráðuneytið hefði miklar efasemdir um það. Meðal annars var sagt að samkvæmt greiningum myndi niðurgreiðsla húsaleigu verða hlutfallslega meiri eftir því sem tekjur heimilisins væru hærri. Það er í andstöðu við yfirlýst markmið frumvarpsins, sem er að auka stuðning við efnaminna fólk.
Þá sagði fjármálaráðuneytið að aukinn ríkisstuðningur af þessu tagi muni að öllum líkindum leiða til þess að leiguverð hækki og það muni hagnast leigusölum. Þá munu nýju bæturnar ekki koma öryrkjum og öldruðum eins vel og þeim sem eru í námi eða vinnu.