Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hver tekur sæti Bjartar Ólafsdóttur á þingi í haust, en Björt og maður hennar eiga á von á tvíburum. Fyrsti varaþingmaður Bjartrar framtíðar í kjördæminu Reykjavík norður er Heiða Kristín Helgadóttir, fyrrverandi stjórnarformaður flokksins, og núverandi fjölmiðlakona á 365.
Valgerður Björk Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar, staðfesti þetta í samtali við Kjarnann. Hún sagði Björtu ekki hafa tekið neina ákvörðun um það hversu lengi hún hyggist vera í burtu frá þinginu, og að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hvort Heiða Kristín setjist á þing í hennar stað eða hvort næsti maður á eftir henni á listanum komi inn. Heiðu Kristínu yrði hins vegar tekið fagnandi ef hún ákvæði að taka sæti. Heiða Kristín staðfesti einnig við Kjarnann að engin ákvörðun hefði verið tekin. Næsti maður á eftir Heiðu Kristínu er Eldar Ástþórsson.
Heiða Kristín hætti sem stjórnarformaður Bjartrar framtíðar um miðjan desember, og ætlaði að hvíla dagleg afskipti af stjórnmálum um sinn, eins og sjá má í tilkynningu hennar um málið sem sjá má hér að neðan. Hún starfar nú hjá 365 miðlum og í undirbúningi er vikulegur þáttur um þjóðmál undir hennar stjórn.