Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Almenni lífeyrissjóðurinn eru á meðal ellefu lífeyrissjóða sem eru nú óbeinir eigendur að hlut í fjölmiðlafyrirtækinu 365 miðlum í gegnum Auði 1 fagfjárfestingasjóð. Alls eru eigendur sjóðsins, sem á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum, 26 talsins. Einn þeirra, AC eignarhald hf., á meira en tíu prósent hlut í sjóðnum. Það er félag í eigu margra stærstu hluthafa og stjórnenda Virðingar, fjármálafyrirtækinu sem stýrir Auði 1 sjóðnum. Þetta kemur fram í ársreikningi Auðar 1 fyrir árið 2013 sem Kjarninn hefur undir höndum.
Kjarninn greindi frá því 18. desember að fjölmiðlanefnd hefði óskað eftir frekari upplýsingum um eignarhald Auðar 1 í 365 miðlum, í kjölfar umfjöllunar Kjarnans um málið. Áður hafði nefndin tekið ákvörðun um að fara ekki fram á þær upplýsingar.
Erindi þess efnis var sent til Sævars Freys Þráinssonar, forstjóra 365 miðla, og Einars Þórs Sverrissonar, lögmanns og stjórnarmanns 365 miðla, og fengu þeir frest til 5. janúar til að svara erindinu.
Lífeyrissjóðir eiga mikið
Fyrr í þessum mánuði var send út tilkynning um að 365 miðlar, langstærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins, og Tal hafi sameinast undir merkjum 365 eftir að Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna félaganna, með skilyrðum. Við það eignuðust fyrrum hluthafar Tals 19,8 prósent hlut í sameinuðu félagi, sem mun bera nafn 365 miðla. Stærsti eigandi Tals er Auður 1, sjóður í stýringu hjá Virðingu, en hann á 18,6 prósent beinan hlut í 365 miðlum eftir að samruninn gekk í gegn. Líkt og tíðkast með framtaks- og fjárfestingasjóði er eignarhald hans ekki opinbert.
Í ársreikningi Auðar 1 kemur hins vegar fram að á meðal eigenda sjóðsins séu ellefu lífeyrissjóðir. Þeir eru Stafir, LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Lífsverk lífeyrissjóður, Festa, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Stapi og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.
Sævar Freyr Þráinsson er forstjóri 365 miðla.
Auk þess eiga 15 aðrir aðilar hlut í sjóðnum, sem átti eignir upp á rúma 3,4 milljarða króna um síðustu áramót. Einungis einn þeirra er nefndur í ársreikningnum. Það er AC eignarhald hf., sem á 10,6 prósent í Auði 1 og er stærsti einstaki eigandi sjóðsins. AC eignarhald varð til við uppskiptingu á Auði Capital þegar sá banki sameinaðist Virðingu. Uppskiptingin gekk í gegn í ársbyrjun 2014.
Alls eru hluthafar í AC eignarhaldi 36 talsins. Þar af eiga tíu stærstu tæplega 70 prósent. Um er að ræða hópinn sem var á meðal stærstu hluthafa í Auði Capital fyrir sameininguna við Virðingu. Hann samanstendur meðal annars af félagi í eigu Kristínar Pétursdóttur, félagi í eigu Ármanns Þorvaldssonar og meðfjárfesta, félagi í eigu Kristínar Jóhannesdóttur og Ásu Karenar Ásgeirsdóttur (systur og móður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, eiginmanns aðaleiganda 365), félag í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, félag í eigu fyrrum eigenda Tinda verðbréfa (m.a. Hjörleifs Jakobssonar og félags í helmings eigu Jakobs Valgeirs Flosasonar), Hannesi Frímanni Hrólfssyni, forstjóra Virðingar, og Ingunni Wernersdóttur.
Langstærsti einstaki eigandi 365 miðla er Ingibjörg Pálmadóttir og félög á hennar vegum með tæplega 80 prósent eignarhlut. Ingibjörg og félög hennar eiga einnig 100 prósent B-hlutabréfa í 365 miðlum.