Sex af hverjum tíu vita ekki hvern þeir vilja sem næsta forseta Íslands. Ellefu prósent þjóðarinnar sem hefur myndað sér afstöðu gagnvart spurningunni vilja Ólaf Ragnar Grímsson áfram á forsetastóli en 21 prósent aðspurðra vilja fá Jón Gnarr í hann. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem RÚV greinir frá.
Þegar einungis er tekið tillit til þeirra sem tóku afstöðu til sérstaks frambjóðenda þá kom í ljós að 21 prósent vill fá Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóra Reykjavíkur, sem næsta forseta Íslands. Þá nefndu 17 prósent Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, sem þann sem þeir vilja í embætti forseta Íslands. Mun fleiri nefndu nöfn þeirra tveggja en nafn Ólafs Ragnars Grímssonar, sem mun hafa setið í forsetaembætti í 20 ár þegar kosið verður á næsta ári. Vert er að taka fram að bæði Jón og Katrín hafa gefið það út að þau sækist ekki eftir því að verða næsti forseti Íslands.
Jón gerði það afdráttarlaust í pistli í Fréttablaðinu í mars og sagði ástæðuna meðal annars vera þá að hann vildi ekki standa andspænis freka kallinum. Skömmu síðar sagði Katrín frá því í útvarpsþættinum Sprengisandi að hún sæi sig ekki fyrir sér í embætti forseta Íslands.
Ýmis önnur nöfn voru nefnd í könnun Gallups. Um átta prósent þeirra sem tóku afstöðu vildu að Þóra Arnórsdóttir, sem er nýráðin ritstjóri Kastljóss og bauð sig fram gegn Ólafi Ragnari árið 2012, verði næsti forseti. Auk þess voru nefnd þau Ragna Árnadóttir (sex prósent), Davíð Oddsson (þrjú prósent), Þórarinn Eldjárn (tvö prósent) og Kristín Ingólfsdóttir (tvö prósent). Alls nefndu 28 prósent aðspurðra önnur nöfn og þrjú prósent sögðust vilja "einhverja konu".
Gallup spurði í rúmlega 1400 manns í netkönnun 19. júní til 1. júlí: Hvern myndir þú vilja sjá sem næsta forseta Íslands? 55,5 prósent svöruðu.