Ríkissjóður hefur greitt samtals 72,8 milljarða króna í vexti vegna endurreisnar viðskiptabankanna. Til viðbótar hefur íslenska ríkið greitt um 80 milljarða króna í vexti og verðbætur á skuld sinni við Seðlabanka Íslands sem er tilkomin vegna aðgerða sem nauðsynlegt þótti að grípa til í kjölfar bankahrunsins. Í svari ráðherrans segir því að samanlagðar „vaxtagreiðslur og verðbætur ríkissjóðs vegna lána, sem tekin voru til endurreisnar á fjármálakerfinu frá hruni í október 2008 til dagsins í dag, nema því alls um 153 milljörðum kr.“.
Þetta kemur fram í skriflegu svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur, þingkonu Framsóknarflokksins um vaxtagjöld ríkisins vegna lána til bjargar fjármálakerfinu sem var lagt fram á Alþingi í dag.
Landsbankinn langdýrastur
Ríkissjóður lagði viðskiptabönkunum þremur til bæði reiðufé í formi víkjandi lána, alls 800 milljónir króna til hvers og eins þeirra, og lagði auk þess inn í þá skuldabréf þegar þeir voru fjármagnaðir. Ríkissjóður hefur síðan greitt vexti af þeim skuldabréfum. Upphaflega stóð til að ríkið myndi eiga, og þar af leiðandi fjármagna að fullu, alla nýju bankanna þrjá. Á endanum var meirihluti hlutafjár í tveimur þeirra, Íslandsbanka (ríkið á enn fimm prósent), og Arion banka (ríkið á enn 13 prósent), afhendur kröfuhöfum þeirra til að hægt yrði að ljúka fjármögnum.
Þess vegna eru útgefin skuldabréf ríkisins til Arion banka og Íslands banka mun lægri en það sem lagt var til Landsbankans, eða samtals upp á 68,4 milljarða króna. Íslenska ríkið hefur því greitt samtals 26 milljarða króna í vexti vegna skuldabréfa sem það lagði inn í þessa tvo banka. Skuldabréfið sem lagt var inn í Landsbanka var töluvert hærra, eða upp á 121,2 milljarða króna, enda á ríkið þann banka nánast að fullu. Því hefur ríkissjóður þurft að greiða 44,2 milljarða króna í vexti vegna fjármögnunar Landsbankans. Við bætist svo 19,2 milljarða króna skuldabréf sem lagt var inn í Landsbankann þegar hann tók yfir SpKef, en töluvert vantaði upp á að sá sparisjóður hafi átt eignir til að standa undir innlánsskuldbindingum sínum. Það skuldabréf hefur kostað ríkissjóð 2,6 milljarða króna í vexti.
Í svari ráðherrans við fyrirspurn Elsu Láru segir því að „Ríkissjóður hefur greitt samtals 72,8 milljarða kr. í vexti af nefndum skuldabréfum frá stofndegi þeirra í október 2008 og til nóvember 2014 vegna viðskiptabankanna. Vaxtakjör skuldabréfanna eru breytileg og taka mið af innlánsvöxtum Seðlabanka Íslands“.
80 milljarðar í vexti og verðbætur vegna Seðlabankans
Í svarinu er líka farið yfir aðstoð ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands í kjölfar hrunsins, en bankinn var í miklum vandræðum eftir hin svokölluðu „ástarbréfaviðskipti“ sem hann stóð í í aðdraganda hrunsins.
Í svari fjármála- og efnahagsráðherra segir: „Í kjölfar falls íslenska fjármálakerfisins í október 2008 urðu veruleg töp á veðtryggingum sem Seðlabanki Íslands hafði tekið til tryggingar lausafjár fyrirgreiðslu fjármálastofnana. Til að tryggja eiginfjárstöðu Seðlabankans keypti ríkissjóður hluta veðkrafna bankans á fjármálastofnanir. Nafnvirði krafnanna voru 345 milljarðar kr. og greiddi ríkissjóður í upphafi árs 2009 um 270 milljarða kr. fyrir þær með verðtryggðu skuldabréfi til fimm ára. Af heildarfjárhæðinni voru trygg veð metin vera um 51 milljarður kr. og óvissar kröfur á um 44 milljarða kr. Ríkissjóður afskrifaði því strax kröfurnar um 175 milljarða kr. Til viðbótar námu afskriftir vegna veðkrafna aðalmiðlara ríkisbréfa 17 milljörðum kr. Seðlabankinn þurfti að afskrifa 75 milljarða kr. vegna veðkrafna bankans á fjármálastofnanir.
Þar af leiðandi nema vaxtagreiðslur og verðbætur ríkissjóðs vegna lána, sem tekin voru til endurreisnar á fjármálakerfinu frá hruni í október 2008 til dagsins í dag, því alls um 153 milljörðum krónum.
Talið var óhentugt að umsýsla krafna ríkis og Seðlabanka á hendur fjármálafyrirtækjum væri á tveimur stöðum og varð því að samkomulagi í lok árs 2009 að Seðlabankinn yfirtæki aftur kröfur ríkissjóðs sem þá voru metnar á 93 milljarða kr. Samhliða þessu seldi ríkissjóður bankanum aðrar veðlánakröfur sem hann hafði leyst til sín vegna bankahrunsins að upphæð 41 milljarði kr. Andvirði þessara viðskipta var síðan nýtt til að lækka kröfu SÍ á ríkissjóð um 134 milljarða kr.“.
Í nóvember 2014 hefur ríkissjóður greitt 30,8 milljarða króna í vexti af skuldabréfi sem ríkissjóður gaf út til fjármögnunar á eiginfjárstöðu Seðlabankans frá ársbyrjun 2009. Verðbætur á höfuðstól bréfsins til 1. janúar 2014, þegar skilmálum bréfsins var breytt í óverðtryggt, nema samtals um 49,2 milljörðum kr. Áfallnir vextir og verðbætur vegna skuldabréfs Seðlabanka Íslands nema því samtals 80 milljörðum kr. í nóvember 2014.
Þar af leiðandi nema vaxtagreiðslur og verðbætur ríkissjóðs vegna lána, sem tekin voru til endurreisnar á fjármálakerfinu frá hruni í október 2008 til dagsins í dag, því alls um 153 milljörðum krónum.