Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra ætlar ekki að leggja til neinar breytingar á rammaáætlun á komandi þingi. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Hún segir hins vegar að öðrum þingmönnum sé frjálst að leggja til endurskoðun á henni.
Á síðasta þingi urðu mikil átök vegna rammaáætlunar. Meirihluti atvinnuveganefndar bætti óvænt við fjórum nýtingarkostum á milli umræðna í þinginu, sem stjórnarandstaðan var verulega ósátt við. Tillagan fjallaði upphaflega aðeins um að færa Hvammsvirkjun í nýtingarflokk en í umfjöllun nefndarinnar var Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun og Skrokkölduvirkjun öllum bætt við. Niðurstaðan varð þó sú á endanum að aðeins Hvammsvirkjun var færð í nýtingarflokk.
Sigrún segir faghópa verkefnisstjórnarinnar um rammaáætlun hafa unnið ötullega að málinu undanfarið. Faghóparnir leggja niðurstöðu fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar 17. febrúar. Verkefnisstjórnin skilar svo tillögum til ráðherra eigi síðar en 1.september á næsta ári.
„Ég hef tröllatrú á þessu ferli sem Alþingi bjó til og vil að það fái að vinna sína vinnu og skila mér í hendur tillögu. Hvort ég geri breytingar á tillögunni þegar ég fæ hana í hendur get ég ekki sagt til á þessari stundu,“ sagði Sigrún við RÚV.