Engin haldbær rök voru fyrir þeirri kröfu ákærðu í Al-Thani málinu að dómur yfir þeim í héraði yrði ómerktur vegna vanhæfis sérfróðs meðdómanda sem var kvaddur til í héraðsdómi. Það er niðurstaða Hæstaréttar um ómerkingarkröfu fjórmenninganna sem voru dæmdir í málinu í dag.
Hinir ákærðu kröfðust þess til vara í Hæstarétti að dómurinn yfir þeim yrði ómerktur, byggt á því að þeir drægu í efa óhlutdrægni og hæfi Magnúsar Benediktssonar, sem var meðdómsmaður í héraðsdómi, vegna lánsviðskipta hans við Kaupþing og SPRON. Lánsviðskiptin hafi valdið því að hann hafi haft mikla persónulega hagsmuni tengda Kaupþingi, en tvö félög sem hann er mjög tengdur hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta undanfarin misseri. Kröfur í eitt þeirra hafi meðal annars verið á hendi Dróma og Arion banka. Hann sé einnig á vanskilaskrá vegna skuldar við Íslandsbanka.
„Um þessar röksemdir ákærðu [um óhlutdrægni Magnúsar] er þess fyrst að gæta að engan veginn verður séð hvernig skuldir meðdómsmannsins eða félaga, sem hann á fyrri tímum hefur gegnt störfum fyrir, við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, Dróma hf. eða Íslandsbanka hf. gætu valdið í málinu þeirri aðstöðu, sem um ræðir,“ segir í dómi Hæstaréttar. Sama gegni um skuldbindingar gagnvart Arion banka.
Þótt meðdómandinn hafi einnig borið skuldbindingar við Kaupþing „verður heldur ekki séð hvernig sú aðstaða gæti leitt til vanhæfis í málinu eftir nefndu lagaákvæði, enda hljóta lántakar þess banka hér á landi að hafa að minnsta kosti skipt mörgum tugum þúsunda. Tengsl meðdómsmannsins við tvö félög, sem munu hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta, og vanskil í einu tilviki við banka eru ekki þess eðlis að hann hafi ekki fullnægt almennum hæfisskilyrðum 1. mgr. 4. gr. nefndra laga til að taka sæti meðdómsmanns. Eru því ekki haldbær rök fyrir kröfu ákærðu um ómerkingu héraðsdóms á þessum grunni.“